STRÍÐINN BÍLL

Þegar ég kenndi í Flensborg hér um árið, átti ég forláta bíl. Hann var dýrasti bíll sem ég hef eignast um ævina enda nýkominn úr kassanum – rauður að lit. Eitt sinn var ég staddur á Lækjargötunni í Hafnarfirði – Guð einn veit hvað ég var að gera þar. Þegar ég ætlaði að halda heim a leið settist ég inn í bílinn – og viti menn stýrið var læst – ég komst hvorki lönd né strönd. Ekki kom til greina að aka í beina línu því frá Lækjargötunni til Holtsgötunnar voru ótal margar beygjur. Nú voru góð ráð dýr og til að snúa á þennan stríðna bíl – tók ég tjakkinn úr farangursrýminu – setti hann í rétta stellingu við vinstra framhjólið – og tjakkaði bílinn upp. Síðan settist ég flötum beinum undir bílinn með framhjólið milli fóta mér. En það var ekkert lát á stríðni bílsins – það var allsendis ómögulegt að snúa hjólinu.
Ég var farinn að tárfella þar sem ég sat bjargarlaus á malbikinu með hjólið milli fóta mér. Þá varð það mér til happs að tveir af nemendum mínum, Bárður Sigurgeirsson og Tryggvi Harðarson, áttu leið hjá. Þeir hjálpuðu mér á fætur. Og meðan annar þeirra þurrkaði tárvotar kinnar mínar þá opnaði hinn hurðina bílstjóra megin – ruggaði stýrinu ofurlítið. Mér til mikillar gleði var nú hægt að snúa að vild.
Daginn eftir mættu mér hvarvetna brosandi andlit nemenda, sumir bentu laumulega á mig og hvísluðu í eyra næsta manns. Ég hækkaði um rúma tvo sentimetra af stolti og vellíðan – ég var greinilega hetja dagsins.

Fyrri   –   Yfirlit góðgætis   –   Næsta