GARÐURINN

Þegar ég var lítill snáði fór ég oft út í garðinn og tíndi blóm handa mömmu. Stundum voru það fíflar og sóleyjar, stundum lúpínur í öllum regnbogans litum og stundum sjaldgæfari blóm. Mamma varð alltaf glöð og setti blómin í vasa, þar sem þau lifðu í nokkra daga. Aldrei skammaði hún mig þegar ég sleit upp sjaldgæft blóm, jafnvel þó það væri bara eitt eftir á plöntunni. Á þessum tíma var mikið af blómum í garðinum.

Garðurinn var með mörgum, fallegum lautum og svo var þar hóll. Lautirnar voru klæddar torfi, í sumum þeirra voru meira að segja hlaðnir hægindastólar og bekkir. Þarna kúrði ég oft í skjóli af kræklóttum birkihríslum. Í stærstu lautinni var kaffiborð; platan þumlungsþykk hraunhella; ef grannt var skoðað var hún í laginu eins og Íslandskort; kannski frekar gamalt Íslandskort. Vestanmegin við lautina var svo hóllinn. Ég sat stundum við borðið og bauð álfunum, sem bjuggu í honum, kaffi og rjómapönnukökur. Ég hafði heyrt margar sögur um álfa og þess vegna ætlaði ég ekki að þiggja boð frá þeim um að koma inn í hólinn.

Þegar mamma veiktist gat hún ekki séð um garðinn lengur. Ég fór einu sinni út og ætlaði að hreinsa stóra beðið undir hlaðna grjótveggnum þar sem regnbogalúpínurnar voru. En litlu hendurnar mínar gátu ekki rifið upp húsapuntinn. Það var sem hann væri búinn að vefa net í kringum fallegu blómin í beðinu.

Garðurinn er ekki lengur til. Smám saman fækkaði blómunum. Rollurnar, sem herjuðu á þorpið á nóttunni, klipptu burt fallegustu knúppana; og húsapunturinn var búinn að hreiðra alls staðar um sig. Hann þrengdi að plönturum og þær visnuðu og dóu. Fallegustu birkihríslurnar voru fluttar burt – eftir voru bara holur.

 

Yfirlit örsagna – Næsta