Við settum upp hringana þegar við vorum tíu ára; gardínuhringi sem pössuðu á litla fingur. Nokkru seinna gaf sonur prestsins okkur saman í heilagt hjónaband; hann var sjö ára. Athöfnin fór fram í fallegum trjálundi. Hún var látlaus en henni fylgdi kitlandi gleði.
Upp úr hjónavígslunni spratt hugmyndin um að stofna skóla fyrir yngri krakka úr nágrenninu. Sonur prestsins var sjálfskipaður skólastjóri, en við hjónakornin sáum að mestu um kennsluna. Ef krakkaormarnir voru óþægir voru þeir sendir til stjórans og setti hann þá í skammarkrókinn. En krókurinn var rimlarúm fyrir pelabörn og það var hægt að hvolfa því yfir óþekka orma.
Hjónalífið einkenndist af leik og starfi.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta