Við stóðum þarna inni í kompunni, skólameistarinn og ég. Hann hafði kallað mig afsíðis – þurfti nauðsynlega að tala við mig. Ég var heldur fúll því skemmtiatriðin voru rétt að byrja á árshátíð skólans. Ég brá á það ráð að bjóða honum inn í litlu notalegu íbúðina mína, en þegar til átti að taka var ég ekki með lykilinn að hurðinni milli kompunnar og íbúðarinnar.
Hann varð vandræðalegur á svipinn og sagði varfærnislega:
„Ég verð þá bara að segja þér þetta hérna.“
Ég beið óþolinmóður, gat hann ekki flýtt sér? Átti ég að missa af öllu gamninu?
„Ég hef slæmar fréttir að færa þér; hún móðir þín er látin.“
Glottandi rafmagnsmælar uppum alla veggi. Rafmagnstöflur með röðum af öryggjum; gamaldags öryggi í postulínshulstrum. Hér var inntakið fyrir orkuna í skólabygginguna; héðan var rafmagninu dreift um ótal leiðslur til allra skúmaskota hússins. Ljós til allra kennslustofa, ljós til eldhússins, ljós um alla ganga og ljós til allra híbýla.
Ég man ekki hverju ég svaraði.
+++
Á heimferðinni rásaði bíllinn hjá mér ýmist til hægri eða vinstri á veginum, allt var þoku hulið – grátur minn var sár og þungur. Þegar ég kom að húsinu heima sá ég dauft ljós í fáeinum gluggum. Ég hallaði mér fram á stýrið og reyndi að stöðva grátinn. Ég heyrði í orgeli. Kveðjan eftir Beethoven ómaði út í næturkyrrðina. Ég fór inn og í anddyrinu kom bróðir minn á móti mér. Í stofunni sat mágkona mín við orgelið. Bróðir minn leiddi mig inn í herbergið þar sem mamma hvíldi. Ég kraup við dívaninn þar sem hún lá. Yfir henni var yndislegur friður. Gráturinn kom aftur, ekki lengur þrunginn ekka heldur hljóður og sefandi. Orgeltónarnir umluktu okkur. Nú var það Söngurinn til Kveldstjörnunnar eftir Wagner. Ég sá fyrir mér líf hennar eins og ég þekkti það: ánægja og sárindi, gleði og sorg – undarlega samtvinnuð.
Nú var spilað Ave verum corpus eftir Mozart.
+++
Það er svo margt sem við eigum eftir að ræða, mamma! Hvers vegna settist ég aldrei hjá þér í rólegheitum og talaði við þig? Af hverju spurði ég ekki um æsku þína í torfbænum; hvernig það var að vera elsta systirin í stórum barnahópi; hvernig fyrstu árin þín í kaupavinnu voru; hvernig fyrra hjónabandið var þar sem þú fæddir elstu systkini mín; hvernig fyrstu árin í skáldaþorpinu voru? Hvers vegna settist ég aldrei hjá þér, mamma?
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta