Á hraðferð.
„Hæ manni.“
Hann stendur þarna brosandi, litli maðurinn og heldur um stýrið á þríhjólinu sínu.
„Hæ,“ segi ég um leið og ég skýst framhjá.
„Ertu að flýta þér?“
Ég staldra við og svara: „Já, þegar maður er orðinn fullorðinn þá verður maður oft að flýta sér.“
„ Amma mín er aldrei að flýta sér,“ segir snáðinn.
„Sko, hún er búin að eignast hús og bíl; ég á hvorugt – bara skuldir.“
„Haaa – skuldir?“
„Hún skuldar örugglega ekki neitt, hennar kynslóð fékk allt upp í hendurnar – verðbólgan át þær.“
„Hendurnar hennar ömmu eru ekki skemmdar, amma er með fallegar og hreinar hendur, veðbólan hefur ekki átið þær.“
Ég var farinn að ókyrrast, það var nú ekki hægt að ætlast til að litli maðurinn þekkti vandamál fullorðna fólksins. Hann á eftir að rekast á þetta fyrr en seinna.
„Jæja, nú má ég ekki vera að þessu lengur, skyldan kallar – vertu bless.“ Ég veifa honum yfir öxlina um leið og ég hleyp af stað.
„Bless, manni.“
Ég heyri að hann brosir. „Ætlarðu að sprengja veðbóluna í dag?“
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta