STALÍN ER EKKI HÉR

Ég hef leikið í þó nokkrum leikritum hjá áhugamannaleikhúsum. Það er hin besta skemmtun – aðallega fyrir leikarana og aðra sem að sýningunni standa. Oftast hef ég fengið nokkuð góða dóma. En þegar ég lít til baka er einn dómur sem slær alla aðra út. Hann fékk ég þegar ég lék með Leikfélagi Hafnarfjarðar.

Við vorum að setja á svið Stalín er ekki hér eftir Véstein Lúðvíksson. Ég fékk að leika Þórð (Stalín) og bólgnaði allur út af stolti – nú var komið að mér að slá í gegn. Leikstjórinn sagði okkur í byrjun að hann hefði kynnst Vésteini rétt eftir að hann skrifaði leikritið og hafði Vésteinn sagt að í sínum huga þá hefði Stalín verið mildur og umhyggjusamur fjölskyldufaðir og þess vegna allt annar inni á heimilinu en þegar hann sinnti hlutverki hins harða og ósvífna landföður. Ég var nokkuð hissa á þessu því ég hafði séð Helga Skúlason leika Þórð í Þjóðleikhúsinu og sá Stalín var sko hvorki mildur né umhyggjusamur. Þegar ég hugsa betur um þetta í dag þá þykist ég skilja að kannski mætti lesa þetta út úr nafni leikritsins: Stalín er ekki hér.

Allan æfingartímann þurfti leikstjórinn nú að berja mig niður – breyta mér úr harðri og ósanngjarnri persónu yfir í milda og skilningsríka manneskju. Ég lagði mig allan fram um að uppfylla óskir leikstjórans og var hann orðinn mjög ánægður með frammistöðu mína þegar frumsýningin var á næsta leiti.

Og svo kom stóra stundin – frumsýningin. Systir mín og frændi og kona hans mættu og eftir sýninguna hitti ég þau og spurði hvernig þeim hefði fundist frammistaða mín. Þau tvístigu vandræðalega og vildu ekkert segja – nema að það væri sérlega gaman að hitta mig. Einhverjir gagnrýnendur voru á sýningunni og daginn eftir kom drungalegur dómur: Leikritið kolféll vegna sérlega lélegrar frammistöðu minnar. Það var hinn mesti kjánaskapur að setja smáfættan mig í skó Helga Skúlasonar.

Af einhverjum ástæðum var frumsýningarpartíið haldið nokkru seinna. Þegar allir voru komnir í gírinn þá labbaði ég til leikstjórans. Hún hallaði sér upp að barborði og fegurðin og glæsileikinn geislaði af henni. Ég spurði hvernig henni hefði líkað dómarnir um frammistöðu mína. Hún reisti sig upp og leit á mig í allri sinni dýrð – með stingandi augum – og sagði: „Það var nú óþarfi hjá þér að vera eins og gólftuska þarna uppi á sviðinu“!

FyrriYfirlit góðgætisNæsta