JAFNRÉTTI

Konan mín fyrrverandi var og er mikill jafnréttissinni. Þegar ég flutti inn á heimili henn­ar og dætranna var mér gert ljóst að heimilisstörfin áttu að skiptast jafnt á milli mín og hennar. Ég átti til dæmis að passa ellefu ára stúlkuna á heimilinu okkar á meðan konan stundaði hlaup úti á kvöldin með vinkonum sínum. Mér þóttu þetta reglulega hagstæð býti því litla stúlkan passaði sig sjálf. Ég var lítið fyrir hlaup nema þá helst þegar ég var að missa af strætó.

+++

Ég kveið mikið fyrir þrifunum.

Konan mín hafði nefnilega sagt mér þegar hún hjálpaði mér að flytja úr litlu íbúðinni minni að hún hefði aldrei séð jafn skítuga íbúð. Þegar ég hafði komið fátæklegum eigum mínum út í flutningabílinn þá varð henni enn betur ljóst hvað ástandið var alvarlegt.

„Það er bara eins og þú hafir ekki þvegið gluggatjöldin síðustu fimmtíu árin!“

Og þegar hún geystist um teppalagt stofugólfið með kraftlitlu ryksuguna mína að vopni þá varð henni að orði:

„Ég þarf sennilega að fara niður úr flosinu til að ná öllu rykinu og skítnum upp!“

Ég var dolfallinn yfir krafti hennar og lagni við þrifin. Ég lallaði fram í eldhús og fór að þrífa eldhúsvaskinn. Hún kom fljótlega til mín, og sagði:

„Það er ekki von að þú hafir getað haldið þessu hreinu! Þú átt engar almennilegar græjur til að gera þetta!“

Svo dró hún upp úr  pússi sínu bursta sem var sér­hannaður til að þrífa eldhúsvaska. Hann var með þrjá hausa: einn var harður og stinnur bursti, annar mjúkur svampur með harðri bakhlið og loks var á verkfærinu upphringaður, gormlaga stálhnoðri sem aðrar konur nota venjulega til að ná skófum úr pottum.

Ekki tók betra við þegar kom að því að þrífa klósettið.

„Hvað er þetta maður! Þú hefur aldrei lyft setunni upp og þar að auki sífellt verið að pissa út fyrir.“

Ég seig saman í herðunum. Aftur dró hún fram úr pússi sínu sérhannað tól:  klósettbursta með aukabursta til að þrífa raufina þar sem vatnið frussast ofan í kló­sett­ið. Hún sprautaði sótthreinsilegi á alla ávala fleti. Síðan burstaði hún og skrapaði á milli þess að hún sturtaði niður. Loks tók hún fram mjúka tusku og strauk hægt og varlega inn í raufina. Ég kúgaðist en tókst með naum­ind­um að komast hjá því að æla í vaskinn.

„Oj, hún snerti kúkinn!“, hugsaði ég og hélt mér dauðahaldi í vaskinn.

+++

Ég var hálfsmeykur þegar hún hugðist kenna mér að þvo tröppurnar í stiga­gang­inum okkar – á jafnréttisgrundvelli. Hún brosti hughreystandi til mín þar sem við stóð­um á stigapallinum og horfðum niður eftir stiganum.

„Nú þvæ ég aðra hverja tröppu og þú hina.“

Hún tók fram tvö sett af græjum handa okkur. Í hvoru setti var: skrúbbur, skólpfata með heitu sápuvatni, gróf tuska, mjúk tuska, gúmmíhanskar og tannbursti.

„Nú þvæ ég fyrstu tröppuna og þú þá næstu og þannig tröppu af tröppu“.

Ég var mjög feginn, nú myndi ég loksins læra þetta, enda undir handleiðslu sérfræðings. Hún setti upp hanskana og ég sá enn einu sinni hve hendur hennar voru fíngerðar og fallegar. Hún dýfði grófu tuskunni í sápuvatnið og vatt hana styrkum höndum. Hún vafði henni síðan um skrúbbinn og fór yfir láréttan flöt efstu tröppunnar. Skíturinn skrapaðist af. Svo tók hún tannburstann og hreinsaði kverkina svo og hornin við sitt hvorn enda hennar. Loks setti hún mjúku tuskuna í sápuvatnið; vatt hana fagurlega og þvoði svo báða fleti tröppunnar, fyrst þann lárétta og síðan þann lóðrétta.

„Nú gerir þú eins“, sagði hún.

Ég var ekki viss um að mér tækist að leika þetta eftir en lagði mig allan fram.

„Þetta var góð byrjun hjá þér en þú kannt greinilega ekki á tannbursta.“

Mér þótti hrósið gott og krafsaði nú í hornin og kverkina með tannburstanum af miklum móð.

Þannig fikruðum við okkur niður stigann hlið við hlið.

Í miðjum stiganum komum við að tyggjóklessu. Konan mín kunni ráð við henni.

„Hlauptu inn í stofu. Þú finnur kökuspaða í skápnum sem er fyrir matarstellið, bollastellið og silfurhnífapörin. Kökuspaði er áhald sem passar best á svona ófreskju.“

Ég flýtti mér upp og náði í spaðann. Og nú sá ég að konan mín kunni á kökuspaða. Hún skóf klessuna upp og drekkti henni síðan í skólpinu. Og áfram héldum við staðföst niður á við – tröppu eftir tröppu.

+++

Þegar verkinu lauk, stóðum við upp og virtum fyrir okkur gljáfínar tröppurnar. Og fallega konan mín brosti sínu geislandi brosi.

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta