Þegar ég kvongaðist þá fylgdu tvær dætur með í kaupbæti. Sú eldri var sjálfstæð og ákveðin stúlka. Hún var ekki á því að bjóða einhvern slaufugæja velkominn. En sú yngri tók mér strax mjög vel. Hún er, og verður ávallt, litla stúlkan mín.
Það eina sem hún fann að sambandinu var það, að hún fékk ekki lengur að sofa hjá móður sinni. En hún var ákveðin sú stutta og fann ráð við þessu: hún fékk að sofa hjá móður sinni og mér á víxl. Ég er í vafa um það núna – hvort móðir hennar og ég fengum nokkru sinni að sofa saman.
Eitt sinn sat litla hnátan ásamt bestu vinkonu sinni á efstu tröppunni í stiganum okkar. Móðir hennar heyrði ávæning af skrafi þeirra. Vinkonan, sem var dóttir eins af forystumönnum LÍÚ, var miður sín vegna þess að hún hafði ekki fengið nýjan kjól fyrir sumardaginn fyrsta. Mamma hennar hafði sagt að það væru einfaldlega ekki til peningar þessa stundina. Tátan mín svaraði full samúðar: „Þú þarft sko ekkert að segja mér um svona lagað. Hvernig heldurðu að það sé að alast upp hjá kennara og leikskólastjóra. Það er aldrei til nokkur aur á heimilinu!“
Litla stúlkan mín reyndi mikið að ala mig upp. Hún varði talsverðum tíma í að kenna mér umferðareglurnar: maður á að ganga yfir götur á gangbrautum og maður á að hlýða umferðarljósunum. Ég lét þetta eins og vind um eyrun þjóta og stúlkan mín var heldur súr yfir virðingarleysi mínu fyrir lögum og reglum.
Að hennar mati var borðsiðum mínum líka mjög ábótavant. Maður á að segja: viltu gjöra svo vel að rétta mér smjörið, í stað þess að segja – réttu mér smjörið! Ég tók þetta ekki í mál, teygði mig frekar eftir smjörinu sjálfur.
Ég reyndi hvað ég gat að taka þátt í uppeldi hennar. Eitt sinn sátum við að snæðingi inni í borðstofu og stúlkan mín var að bíta í tómat. Ekki vildi betur til en svo að þegar hún beit í, þá frussaðist tómatssafi á fallegu, bláu peysuna hennar. Ég setti upp vandlætingarsvip og sagði: „Svona gerir maður ekki, elskan. Nú þarf mamma þín að þvo peysuna aftur; hún sem kom úr þvottavélinni í gær.“ Litla stúlkan mín sendi mér hvasst augnaráð og svaraði að bragði: „Það er ekki hægt að borða tómat öðru vísi en að setja niður á sig.“
Þegar ég beit í tómat í gær spýttist safi niður á skyrtuna mína. Og ég geri mér grein fyrir að þetta gerist nokkuð oft hjá mér. Litla stúlkan mín hafði því talsvert til síns máls. Að vísu hefur það flökrað að mér hvort þessi vísdómur tengist því að tvisvar verður gamall maður barn.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta