Hálfrokkið í salnum. Klukkan hálfþrjú að nóttu og veiðitíminn hafinn. Ég lít í kringum mig svona eins og af tilviljun, voru þarna einhverjar fallegar, tilkippilegar stelpur?
Best er náttúrulega ef þær svona rangla til mín og spyrja . . . „Áttu eld?“ Ég er alltaf með kveikjara tilbúinn, reyki reyndar ekki nema eina og eina meðan ég bíð eftir að einhver vilji spjalla.
Tveir strákar eru á dansgólfinu, klæddir í útvíðar buxur og jakka sem falla þétt að líkamanum; háir hælar. Tveir strákar með þykkt, sítt hár; andlitin eru nánast hulin í sveiflunni. Dans þeirra er fullur þokka, hraður og æsandi. Annar kippir snöggt upp öðru hnénu, hinn snertir það með olnboganum. Létt og hratt, snöggt og harkalega. Óvæginn bardagi – blíð ástaratlot? Núna snúa þeir bökum saman, bossi snertir bossa, bak strýkst við bak. Þeir snúast í hringi sem einn maður. Fóstbræður – elskendur – vinir? Undarlegur, æsandi fiðringur fer um mig. Af hverju átti ég ekki vin sem ég gat dansað við?
Puh, ég er sko enginn hommi. Mig langar bara að dansa. Svona eins og þeir gera í Rússlandi.
+++
Ég sá vinina aftur fjörutíu árum seinna. Þeir voru enn að dansa. Hárið þétt eins og áður, ofurlítið grátt. Það sást framan í þá núna. Gleðin, fjörið og þokkinn geislaði af þeim eins og áður, hlý og glettnisleg bros.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta