Úr felum – nýtt líf. Til Danmerkur eftir fjórar vikur. Nýtt upphaf.
Þegar ég kom inn á Krána í Ingólfsstræti heyrði ég sterkan norðlenskan framburð. Þú stóðst við barinn, fallegur, brosandi, ungur maður. Í samræðum við hvern? Ég veit það ekki. Sennilega barþjóninn. Ég sá bara þig. Ég settist við hliðina á þér. Þú varst á skyndiferðalagi til Reykjavíkur, stutt stopp, svo færirðu aftur norður.
„Hvernig er lífið fyrir norðan?“
„Opin sambönd með stelpum; með strákunum er ég í felum,“ svaraðir þú.
Þegar ég hafði lokið við einn bjór kvaddi ég.
„Kannski sjáumst við einhvern tíma aftur.“
Ég veit ekki hvor okkar sagði það eða hvort það var sagt. Ég hugsaði það alla vega. Viku seinna fór ég aftur á Krána. Og um leið og ég kom inn heyrði ég hressilegu norðlenskuna þína. Aftur var ég heppinn. Það var laus stóll við hliðina á þér. Nú varstu fluttur til Reykjavíkur bara rétt sisona, varst orðinn leiður á Norðurlandi. Við drukkum saman einn, tvo bjóra en svo spurðirðu hvort við ættum ekki að kíkja á strákana uppi á Café 22.
„Ég þarf ekki að kíkja á fleiri stráka í kvöld,“ sagði ég.
Þú svaraðir af bragði: „Ég hef aldrei sofið hjá eldri manni.“
Orðið „eldri“ hljómaði kalt en brosið sem fylgdi dró úr kuldanum.
„Þú mátt reyna og reyna og reyna,” sagðirðu og hlóst glettnislegum hlátri.
Við drukkum einn bjór í viðbót og lögðum svo af stað upp á 22. Úti á götu staldraðirðu við.
„Kannski ættum við að vera hér áfram.“
Ég hlýt að hafa ljómað eins og jólatré. Ef þetta var ekki tákn, hvað var þá tákn? Þegar við skildum eftir nokkra bjóra í viðbót, hafðirðu þegið boð um að koma með mér út að borða þremur dögum seinna.
Við mæltum okkur mót á veitingastaðnum Ítalíu. Notalegt andrúmsloftið hafði strax áhrif á mann. Ég settist við vegginn og þú settist á móti mér. Kertaljós á borðum og dauf ljós í loftinu. Eftir því sem leið á kvöldið áttaði ég mig á að þú ert með gamla sál. Ég sagðist eiga fáa vini en þeir gæfu mér mikið.
„Þú gefur á móti.“
Hvað ein svona lítil setning getur verið hlý. Þú sagðir mér að þú værir skyggn, að þú fyndir oft á þér hvað lægi í loftinu. Stundum vissirðu hvernig átti að bregðast við. Ég spurði ekki hvort þú sæir eitthvað um samband okkar. Ég óttaðist svarið. Að sjálfsögðu bauð ég þér að koma með mér til Danmerkur; ég færi eftir þrjár vikur.
„Það tók þig einungis eina viku að ákveða flutning til Reykjavíkur. Duga ekki þrjár til að ákveða flutning til Kaupmannahafnar?“
Þú brostir glaðlega en svaraðir ekki. Ég lifði þarna eina fallegustu stund lífs míns. Ég hafði boðið karlmanni út að borða og þorði að láta hann finna hvað ég var hrifinn af honum. En aðallega var það af því að maðurinn varst þú.
Þú hafðir fengið vinnu á Kránni. Ég kíkti við nokkrum sinnum áður en ég fór. Þú sagðir mér að þú málaðir myndir og að þú ætlaðir að gefa mér eina. Þú sagðist ekki selja þær, þú gæfir vinum þínum þær. Stundum fengju vinirnir að velja mótífið. Nokkrum dögum seinna kíkti ég við hjá þér og spurði hvort ég mætti ráða mótífinu á myndinni minni. Þú brostir og sagðir að það væri allt í lagi.
„Mig langar í sjálfsmynd af listamanninum. Fyrst ég fæ ekki frummyndina með mér til Danmerkur þá er það næstbesti kosturinn.“
Ég fluttist til Danmerkur rétt fyrir áramótin. Í febrúar sendi ég þér bréf. Þú svaraðir aldrei.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta