ELSKU VINKONAN MÍN

Eitt sinn fórum við saman til Parísar; elsku vinkonan mín og ég. Á hverjum morgni hittumst við til að snæða saman morgunverð. Ungur og fallegur þjónn uppvartaði okkur af mikilli alúð – og urðum við bæði skotin í honum. Næstsíðasta daginn sem við dvöldum þarna var ég seint á ferð í morgunmatinn. Þjónninn spurði elsku vinkonuna mína hvort eiginmaðurinn ætlaði ekki að mæta. Hún svaraði að ég væri sko ekki eiginmaðurinn hennar.

Þjónninn jesúsaði sig og spurði hvort hún vildi ekki skella sér með honum á skemmtistað um kvöldið. Elsku vinkonan mín ljómaði og kvaðst fús til þess. Líður nú og bíður. Um eftirmiðdaginn hefur hún snyrtinguna fyrir kvöldið, sturtar sig og makar djúpnæringu í hárið. Síðan vefur hún handklæði um höfuðið og leggst í rúmið, svona til að fá sér smá kríu. Það er skemmst frá því að segja að elsku vinkonan mín svaf af sér þjóninn.

Þannig misstum við bæði af nánari kynnum við þjóninn:
hann var of ungur fyrir mig og hún var of þreytt fyrir hann.

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta