GRÓUSÖGUR

Er verkfall? Ég veit ekki betur en að allir séu í fullu starfi – þetta er hin mesta blessun – ekki bara fyrir fáa útvalda. Af hverju langar mann til að eignast son? Það er helvítis kjaftæði. Gróusaga, sem komið er af stað, til að gera einn sterkan en annan veikan. En sá sterki er ekki sterkur – hann vantar mýktina – fyrirgefið að ég er að halda fyrirlestur um þetta – ég er bara svo reynslulaus – ætli ég sé ekki bara á námsskeiði í heimspeki fyrir börn? Og sá veikari – ég þekki hann ekki – eða er ég sá veikari? Af hverju efast maður um allt – er það til að læra af því? Kunna augnlæknar eitthvað til verka – eru þeir komnir svona langt? Augnlækningar eru jú ævafornar – ekki satt? Eru til tölvur? Hvert liggur símalínan frá tölvunni? Hverjir fletta upp vísdómnum sem birtist á skjánum? Þar er náttúrulega sama óvissan – þeim sem fletta getur missýnst og skjöplast alveg eins og allt þetta sem tölvan hefur aðgang að – ef hún er til – getur orðið útatað í villum og misskilningi. En það skiptir engu máli – þetta er allt tilbúningur. Tilveran er fallegt og ilmandi kaffiboð þar sem allir eru góðir hver við annan. Svo ákveða nokkrir menn að fara í leik og fylla loftið af gróusögum. Hvernig við tökum á þeim – það er vísdómurinn. Ég veit að þetta er fátækleg skýring – ég er einungis að reyna að bregðast við því áreiti sem ég hef orðið fyrir – skilja það. Það virðist engu máli skipta hver sannleikurinn er. Hvernig eigum við að læra af sögunni þegar sagan er einungis fallegt kaffiboð?

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta