DRAUMAR

Jarðbundinn – samt ekki laus frá draumum. Kannski bíður hamingjan við næsta horn. Jarðbundinn – jarðbundnir draumar. Hlý hönd – hlý, útrétt hönd – hún þarf ekki að færa mig til æskuáranna. Þau eru ekki lengur mín þótt mig langi til þess. Hlý hönd – hlý, útrétt hönd. Ég horfi á kvikmyndir heima í stofunni minni – les Harry Potter – fjórðu bók á ensku – forsala á þýðingunni var auglýst í gær. Mér leiðist ekki þegar ég er einn – ég hef líka stuðning frá Harry. En tárin streyma þegar ég horfi á myndirnar – bæði þegar leikararnir upplifa sorg og líka þegar gleðin hellist yfir þá. Ég þarf að vinna í þessu – hætta að gráta þegar ég horfi á kvikmyndir. Af hverju er ekki asískur elskhugi hérna hjá mér? Næ ég aldrei sambandi? Er ekki nóg að þrá það? Hvernig á ég að breyta mér? Hvar ertu? Ertu til? Hvað gerirðu, ha, ertu músíkant? Vinkona mín var einmitt búin að spá því. Hún leggur Tarot-spil – ég dró Elskendurna og Stafakónginn en hann er mjög listrænn og leikur á hörpu. Svo dró ég konung bikaranna, það er ég – ástrík og gefandi persóna. Ég hef samt ofurlitlar áhyggjur af Elskendaspilinu – það sýnir nakinn mann og allsbera konu í faðmlögum. Ég þarf að kaupa mér Tarot-spil fyrir homma. Þú, músíkant viltu hlusta á söng minn eða – á ég að halda honum fyrir mig einan? Ertu hættur að syngja næturgali? Þú fagri fugl – hvað ég vildi fá að snerta þig – bara ofurlitla stund. Rödd þín snertir mig, umvefur mig – svo angurvær – svo blíð. Ert þú lykillinn að helgidómum alheims? Hver er lykillinn að þér? Er það væntumþykja, trygglyndi, umhyggja, ástríða, virðing, þrá og ástin eina? Af hverju set ég mér alltaf svona stór og fjarlæg markmið? Markmið – draumur, já, líklega. Draumur sem er dæmdur úr leik til eilífðar – eilífur draumur – elífðardraumur. Ætli ég geti orðið fallegur engill eins og þú?

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta