„Þegar við viljum fara til útlanda, þá gerum við það í draumi. Maður stígur upp í módel af flugvél. Það er ekki svona fislétt eins og þau sem við límum saman. Nei, þetta eru feiknastór og hávaðasöm módel, svo stór að þú þarft stiga til að komast um borð.”
„Viltu fara með mig til útlanda, pabbi?”
„Já, það skal ég gera. Hvert viltu fara?”
„Eitthvert þangað sem enginn hefur komið áður.”
„Það verður ekki erfitt,” sagði ég. „Við finnum örugglega draumalandið með töfrahöll og kóngsdóttur og fullt af álfum. Þú skalt samt ekki segja mömmu að við séum að fara. Þetta verður leyndarmálið okkar.”
„Hún verður alltaf svo spæld þegar ég segi henni hvað við tölum um.”
Hann lét ekki að sér hæða, litli snáðinn minn.
Baka til í höfðinu á mér hljómar hvell rödd konunnar minnar fyrrverandi:
Hættu að ala drenginn upp á bulli og órum! Þú og þín útlönd! Heldurðu að hann hafi ekki sagt henni Rósu að Spánn væri ekki til! Hún hafi bara verið í sólarlampa! Hún sem var nýkomin heim þaðan, svona fallega brún. Viltu að hann verði veikur líka? Þú ættir frekar að fara með hann út á tún og sparka bolta; kenna honum að skora mörk og verja þau. Eins og aðrir pabbar gera! Ég ætla að fara til Portúgal næsta sumar og sýna honum hvað þú ert ruglaður!
Ég svaraði ekki ræðu konunnar, ég vissi að það gat kostað mikið þras.
„Viltu koma í sparkleik?” spurði ég snáðann.
„Það heitir fótbolti, pabbi. Segðu mér frekar frá útlandinu sem við ætlum að finna.” Mér létti, ég var alveg ónýtur í sparkinu.
„Draumalandið okkar,” sagði ég. „Þegar mamma þín er búin að kyssa þig góða nótt í kvöld skaltu setja stóra bangsann þinn til fóta í rúminu og síðan skaltu hvíla fæturna á honum þannig að þeir verða hærri í rúminu en höfuðið. Ef þú gerir þetta þá manstu draumana sem þig dreymir í nótt. Hringdu svo í mig eftir skóla og segðu mér hvað þig dreymdi. Við skulum láta draumana þína segja okkur hvert við eigum að fara.“
„Eiga draumarnir mínir að ráða hvert við förum?” Augu snáðans ljómuðu af hrifningu og röddin varð skærari af kæti. „En pabbi þú hefur alltaf stýrt draumunum okkar – ég er ekki viss um að ég kunni það.”
„Vertu óhræddur, snáðinn minn …”
„Ekki kalla mig snáða! Ég er margbúinn að segja það!”
Það var rétt, hann er stór strákur núna – snáðinn minn.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta