BRÉF SEM VORU SEND

Frændi sæll,

af mér er allt gott að frétta. Ég var að segja lækninum mínum að ég liti ekki lengur á mig sem sjúkling – frekar sem persónu í ofurnæmu ástandi. Ég veit að ég þarf að fara mér hægt því lítið áreiti getur komið mér úr jafnvægi. Hann vildi að ég legðist inn á sjúkra­hús. Hann rökstuddi það með því að ég þyrfti að fá hjálp til að muna eftir lyfjunum en það get ég gert sjálfur. Ef hann hefði sagt mér að það sem ég er að upplifa í dag í þessu tendraða ástandi væri sjúkt og ég þyrfti á aðstoð fagfólks til að koma mér út úr ruglinu sem ég lýsti fyrir honum þá hefði ég með jafnaðargeði samþykkt innlögn. Hann hafði engar áhyggjur af upplifunum mínum ef ég myndi eftir lyfjunum. Það er varla hægt að tala skýrar ef maður vill komast hjá því eins og læknirinn greinilega vill að taka afstöðu til upplifana minna.

Hafðu ekki áhyggjur frændi sæll, ég fer varlega.

+++

Sæl vinkona,

ég varð fyrir dularfullri reynslu rétt núna.

Ég var staddur á Strikinu hérna í Kaupin og ég lét teikna af mér mynd. Á meðan á teikningunni stóð voru um 15 manns í kringum okkur. Þeir fylgdust með svo alvarlegir að mér varð á að spyrja hvort þetta væri svona skrýtið. Það brosti enginn. Augna­blikið líktist því er hópur fólks sökkvir sér niður í að skoða eitthvað mjög merkilegt og sameinast í því. Einstaka bros kom svona eins og kurteislegt klapp til mín og síðan héldu menn aftur í leiðsluna. En hlýlegt bros hélst á stöku andliti. Þegar ég fékk að sjá myndina flýtti ég mér að borga og koma mér burt. Ég þorði ekki að fara aftur til hans og spyrja: „Hvern varstu að teikna? Teiknaðir þú drauminn?“ Ég er alltaf svo lengi að hugsa enda var það kannski eins gott. Hann hefði nefnilega getað sagt: „Já“, og meint gítarinn sem ég hélt á og hljóðnemann sem stóð fyrir framan mig. Þessi yfirheyrsla hefði ábyggilega orðið fullt eins góð og lélegustu absúrdleikhús geta orðið.

Myndin sýndi ungan mann sirka 18 ára gamlan – upp í huga mér komu þrír ungir menn sem mér hefur þótt vænt um. Ég hef í leikjum mínum talað við þá eins og þeir væru í mér eða mjög nálægir. Getur þú útskýrt þetta fyrir mér – vinkona.

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta