EFTIRMÁLI

Ég er haldinn ólæknandi sjúkdómi sem kallast manio-depression á læknamáli, hann hefur hlotið það fallega nafn geðhvörf á íslensku. Sjúkdómurinn lýsir sér í miklum geðsveiflum, ýmist hátt upp eða djúpt niður. Í báðum tilfellum missir maður gjörsamlega vald á dómgreind sinni. Í þunglyndinu getur tvö þúsund króna rafmagnsreikningur orðið óyfirstíganlegt vandamál, beinlínis ógnun við tilveruna. En í oflætinu trúir maður því að maður sé fær um að kenna allar greinarnar í Menntaskólanum við Hamrahlíð og svo býðst maður til að skúra skólann að auki.

Ólæknandi, já, sjúkdómurinn er ólæknandi. Það þýðir samt ekki að maður sé útilokaður frá lífi og starfi utan veggja meðferðarstofnana. Það er hægt að finna lyfjablöndu sem heldur veikindunum í skefjum hjá flestum. En stöðugt eftirlit þarf að vera í gangi. Best er þegar maður er sjálfur fær um það. Annars lendir það á fjölskyldunni eða góðum vini, jafnvel hjá vinnuveitanda.

Öll sveiflumst við, það skiptast á skin og skúrir í lífi okkar, sveiflan líður áfram í kringum línu sem við getum kallað normallínu. Persóna sem situr á línunni sýnir hvorki bros né skeifu.

Það var mikil gæfa að sjúkdómurinn kom ekki fram fyrr en ég var rúmlega fert­ugur. Næstu árin varð mér ljóst að ég eignaðist fáa vini og gömlu vinirnir heltust margir úr lestinni. Í dag á ég fáa en mjög góða vini.

Mér finnst mjög ólíklegt að ég hefði ráðið við þetta ástand ef veikindin hefðu látið á sér kræla þegar ég var fimmtán ára unglingur eða tvítugur ungur maður. Þá hefði ég sjálfsagt setið uppi vinalaus. Einhverjir meðferðarfulltrúar hefðu reynt að hjálpa mér. Og fjölskyldan: var hún kannski þarna af illri nauðsyn? Hún sat jú uppi með þennan vesaling.

Þegar ég horfi til baka þá get ég ekki sagt annað en að á margan hátt hefur þessi reynsla orðið mér til góðs. Draugunum úr fortíðinni hefur fækkað til muna og ég hef lært að glíma við vandamál dagsins í dag þannig að þau verði ekki að draugum morgundagsins. Var þá ekki bara gott að ég klikkaðist?

En málið er ekki svona einfalt. Ég er ekki einn í henni veröld. Nemendur mínir fengu drjúgan skammt af rugli og óþægindum; nokkuð sem ég hefði feginn viljað losa þá við. Í þunglyndinu var ég mjög slakur kennari og því var auðvelt fyrir nemendur mína að gefa mér umsögnina: „Hvernig getur nokkur maður verið svona leiðinlegur?“ Það var ekki erfitt fyrir mig að vinna úr því; fyrst ég var á botninum þá hlutu næstu skref að vera uppávið. Þegar ég var í uppsveiflunni gengu kátlegar sögur af uppátækjum mínum um ganga skólans. En það var bara af því góða – svona smátýra í skammdeginu.

Þetta voru samt smámunir miðað við það sem mínir nánustu máttu þola. Það var erfitt að koma í vinnuna eftir stóru sveiflurnar. En það var miklu, miklu erfiðara að koma heim til þeirra sem manni þótti vænst um. Sárin sem ég veitti þeim voru þess eðlis að konurnar mínar þrjár hefðu ekki síður þurft að fá aðstoð frá sérmenntuðu fólki til að græða þau.

Í dag farnast mér vel af því nú stend ég vaktina sjálfur.

Hallgrímur Hróðmarsson

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna