LITLA TELPAN Í SVIÐSLJÓSINU

FYRIRBOÐI ÞESS SEM KOMA SKYLDI?

Ég fór með vini mínum í Evrópureisu. Við fengum okkur bílaleigubíl og þar sem hann var alvanur að keyra á hraðbrautum þá gat ég bara slappað af og skoðað landslagið – sem þó var ekkert landslag – bara tré og
grasflákar. Vinur minn heltist því miður úr lestinni þegar við vorum komnir til Berlínar.

Og þarna sat ég – strandaglópurinn – með bíl og enga reynslu af akstri á brautunum. Þá mundi ég eftir því að tveir nemendur mínir voru staddir í Kaupmannahöfn. Ég hafði samband við þær og hvöttu þær mig til að koma – Ingveldur Guðrún Ólafsdóttir og Jóhanna Linnet – með þeim var sambýlismaður Ingveldar Guðni Kjartan Franzson og lítil dóttir þeirra Hildur Guðnadóttir.

Við illan leik komst ég á leiðarenda og þá tók við frábær ferð til ýmissra landa og staða. Nú gat ég aftur slappað af því þau skiptust á um að keyra. Við fórum meðal annars til Amsterdam en þar áttu þær að mæta í áheyrnarprufu hjá þekktri söngkonu. Af einhverjum ástæðum var Guðni upptekinn svo það kom í minn hlut að passa litlu telpuna, Hildi.

Ég brá á það ráð að fara með hana á Van Gogh safnið. Hún tók því vel og þegar þangað kom hoppaði hún um af kæti og hvíti kjóllinn hennar stóð stífur út eins og á ballerínu. Fljótlega tók ég eftir því að ljósmyndari nokkur var farinn að mynda prímadonnuna. Og smám saman voru allir farnir að fylgjast með henni – Van Gogh myndirnar féllu algjörlega í skuggann.

Eins og vanalega var ég mjög lengi að hugsa og því datt mér ekki í hug að biðja ljósmyndarann um nafn og heimilfang svo ég gæti keypt af honum þessar myndir. Ég efast um að hann geri sér ljóst í dag hvílíka gullmola hann á í pússi sínu. Þegar við Hildur snérum til baka þá áttum við að hitta ferðafélagana á kaffihúsi á fallegu torgi borgarinnar.

Þegar telpan sá pabba og mömmu hljóp hún til þeirra og öskraði eins og stunginn grís; ég hafði greinilega verið að níðast á henni hjá Van Gogh

Í dag er telpan orðin stór; framkoma hennar er hófstiltari en ég ég er viss um að hún geymir ennþá litlu telpuna í hjarta sér.

Yfirlit góðgætis   –   Næsta