AÐ HLAUPA UPP Í FANG

Ég hljóp upp í fangið á honum í hvert sinn sem hann kom. Eitt sinn sýndi hann mér glás af seðlum í veskinu sínu – ég var sjö ára.

„Bustaðu nú skóna mína, kallinn minn“.
Ég tók skóna og sótti mér græjur til að bursta þá – vandaði mig sérlega vel. Skórnir hans áttu að verða glansandi fínir. Allt vildi ég gera til að gleðja hann og ég ætlaði að verða eins og hann þegar ég yrði stór. Nú voru skórnir tilbúnir.

„Hvað ætlarðu að gefa mér mikinn pening?“

Hann brosti sposkur út í annað munnvikið og sagði: „Ekki neitt – þú gleymdir að setja upp verð.“

Næst þegar hann kom, hljóp ég aftur upp í fangið á honum. Hann sýndi mér aftur seðlana í veskinu og rétti mér skóna.

„Ætlarðu að bursta þá aftur – þeir voru svo fínir síðast.“

Og ég burstaði og burstaði – svei mér þá ef þeir glönsuðu ekki meira en síðast.

„Ætlarðu að fá einhvern pening, kallinn minn? Þú settir ekki upp neitt verð, kjáninn þinn.“

Næst þegar hann kom hljóp ég ekki upp í fangið á honum. Ég held ég hafi sært hann.

 

Fyrri   –   Yfirlit örsagna   –   Næsta