Ég sakna bróður míns heitins, Þórhalls Hróðmarssonar. Það var alltaf gaman að heimsækja hann og konu hans, Önnu Jórunni Stefánsdóttur. Á fyrstu árum mínum í Hveragerði – þ.e. eftir að ég flutti í þorpið á gamals aldri – kom hann stundum í heimsókn til mín og við reyktum úti á svölum – ég eina sígarettu og hann einn smávindil. Hann var reyndar hættur að reykja en stalst til þess svona í laumi við og við.
Við ræddum allt milli himins og jarðar en aðallega stjórnmál. Alltaf fann hann nýja fleti í umræðunni – fleti sem ég í minni einstefnu varð að játa að áttu fullan rétt á sér. Íhaldið var ekki alvont og margt af því sem vinstri menn héldu fram var argasta þvæla.
Ég hef alla tíð haft gaman því að láta á mér bera í pistlaskrifum í ýmsum fjölmiðlum og sakna þess sárt að nú þarf ég að standa einn og óstuddur þegar ég reyni að rökstyðja mál mitt.
Það verður gaman að hitta þig í næsta lífi, kæri bróðir.
Fyrri – Yfirlit góðgætis – Næsta