ÉG ER EKKI EINS OG ÞÚ

Í Hafnarfjarðarstrætó eru tvö og tvö sæti sitt hvoru megin við ganginn. Ég sest alltaf í þriðju röð hægra megin, í sætið nær ganginum. Það er nefnilega aldrei að vita hvers konar fólk gæti sest hjá manni ef maður situr við gluggann.

Það er gott að byrja daginn í friði á leið til Reykjavíkur. En þennan dag fékk ég það ekki.

Hann kom inn í vagninn og settist í sætið fyrir framan mig, nær glugganum, snéri sér við og brosti til mín. Ég stóð upp og færði mig aftar í vagninn. Hann horfði undrandi á eftir mér.

+++

Skrýtinn og æsandi heimur hafði lokist upp fyrir mér kvöldið áður. Drengjalegur heimur þar sem við lékum okkur. Ég var bara að prófa; klaufskur en hann var öruggur og hlýr. Hann leiddi mig. Stríðnislegt bros lék um varir hans og augun voru dimm og djúp. Sítt hár, en hann var samt ekki stelpulegur, nema kannski rassinn. Hikandi faðmlag og léttur koss, svona snerting.

Ég er ekki eins og hann. Ég var bara að prófa.

Atlotin – hvor réði ferðinni? Snertingin var æsandi. Ég faðmaði hann og eitt augna­blik vorum við sem ein manneskja; algleymi.

Ég var fljótur að losa mig úr faðmlaginu. Enginn koss í lokin.

Ég er ekki eins og hann! Ég var bara að prófa!

+++

Þegar ég fór út úr vagninum leit ég sem snöggvast á hann. Alvarlegt augnaráð mætti mér. Síðan leit hann undan og horfði niður á hendur sér.

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta