Á jarðhæðinni í blokkinni minni býr hún Elke. Ég heimsæki hana nokkrum sinnum í mánuði. Sígarettupakkinn minn er geymdur hjá henni – hún vill nefnilega draga úr reykingum mínum. Félagsskapur okkar veitir birtu og yl í hjörtun.
+++
Hún er fædd í Þýskalandi og dvaldi þar til átján ára aldurs. Hún segir mér frá aðdraganda stríðsins, þegar ungir menn í brúnum skyrtum brutu alla glugga hjá kaupmanninum á horninu. Svo kom stríðið. Fólk varð að passa að móðga ekki valdhafana. Börnin í skólanum hennar voru sett í vinnu fyrir ríkið, meðal annars að reyta arfa hjá stórbóndanum í nágrenninu. Þegar hún var tólf ára gömul voru skórnir hennar farnir að þrengja að. Í ljósi þessa gat hún ekki farið út á akurinn. Skólastjórinn hennar varð æfur og sagði: „Ef þú hættir að mæta, stelpuskömm, verður þú flutt í Konzentrationslager.“ Litla stúlkan skildi ekki orðið og spurði pabba sinn hvað það þýddi. Hann svaraði höstum rómi, að hún mætti ekki láta nokkurn mann heyra þetta orð. Hann var Ungverji og þurfti því að gæta orða sinna. Undir lok stríðsins voru ungir drengir og gamlir menn leiddir til slátrunar á vígvellinum.
Núðlurnar sem fengust í upphafi stríðsins, voru litlir hakakrossar. En í lok stríðsins gátu menn prísað sig sæla, ef nokkrar núðlur voru til í verslununum. Börnin héldu áfram að vaxa og þurftu ný klæði. Fatabúðirnar breyttust í skiptimarkaði – en það var ekki það versta sem fólk upplifði. Alls staðar var fátækt og bág kjör. Að vísu lifðu forkólfar Flokksins eins og blómi í eggi.
Sem ung stúlka fluttist hún til Íslands ásamt nokkrum öðrum þýskum stúlkum. Þær réðu sig sem vinnukonur á sveitabæi víðs vegar um landið. Hér var enginn matarskortur og hér var ómæld hlýja. Stúlkan blómstraði í nýja landinu sínu. Hún var líka svo heppin, að á bænum þar sem hún vistaðist bjuggu tvíburar, grandvarir vinnuþjarkar og góðir piltar. Hún krækti sér í annan þeirra og eignaðist með honum sex mannvænleg börn. Svo bættust barnabörnin og barnabarnabörnin við hvert af öðru. Ég er orðinn nokkuð fróður um þessi efnilegu afkvæmi hennar.
Annað umræðuefni okkar eru litlu garðarnir hennar. Annar er ferningslaga, rúmur metri á kant, hinn er þrír metrar að lengd og einn metri á breidd. Ég kalla þá garðana hennar þó að sá stærri tilheyri reyndar blokkinni allri; hún hefur nefnilega tekið hann að sér, snyrtir hann og fegrar. Það eina sem ég þarf að hjálpa henni með, er að kantskera garðana í upphafi sumars. Hún reytir arfann og aðrar óæskilegar plöntur, bætir við blómum og lágvöxnum runnum; og svo einn daginn gróðursetti hún lítið grenitré í stærri garðinum; við verðum að muna að flytja það á annan stað áður en það hrifsar völdin í honum. Helst kemur til greina að færa það að jaðri fallega álfahólsins okkar, sem er í suðausturhorni lóðarinnar.
Í fyrrasumar keypti ég handa henni „Edelweiss“. Hún varð afskaplega glöð; blómin eru mjög sérstæð, hvít, ljósgrá og loðin. Hér áður fyrr, og kannski enn, gáfu hjarðsveinarnir í Bæjaralandi unnustum sínum þetta fallega blóm. Þeir þurftu gjarnan að klífa háa kletta til að ná í það. Og það hefur örugglega hrifið meyjarnar, þegar þeir sönnuðu karlmennsku sína á þennan hátt.
Í góðu veðri býður Elke mér út á veröndina og þar gæðum við okkur á kexi, súkkulaði og blessuðu kaffinu, að ógleymdum hinum langþráðu sígarettum. Þegar kalt er, sitjum við inni og andrúmsloftið verður mettað af notalegum reyk. Hún er gjarnan í skrautlegri mussu – ég held hún eigi einar fimm eða sex slíkar – og stundum setur hún fallega festi um hálsinn til að auka á praktina. Og ef sólin truflar okkur of mikið úti á veröndinni, þá setur hún upp skærlita, appelsínugula derhúfu. Og þá er hún eins og drottning.
Ég hef oft hugsað með mér: Mikið vildi ég eiga svona fallegt ævikvöld. Hún er við góða heilsu, heldur góðu sambandi við fjölskylduna og vinina og ræktar garðana sína
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta