Ég heyri létt, taktfast göngulag; háir, sverir hælar. Mér verður litið upp og sé að á miðju dansgólfinu stendur drengur klæddur dökkri, síðri slá úr flaueli. Hún er brydduð kögri af fjöðrum, hvítum að neðan en efri hluti þeirra er ofurlítið dekkri en flauelið. Stór silfurlituð spenna heldur slánni saman í brjósthæð. Sláin bylgjast glæsilega um drenginn. Eitt augnablik lít ég í kringum mig í salnum. Allra augu hvíla á honum. Andlit hans er íðilfagurt umlukið síðu, kolsvörtu hári. Er þetta Kleópatra endurborin? Nei, bros hans er saklaust og það geislar af gleði. Undir slánni greini ég tígulegan, fjaðurmagnaðan líkamann. Er hann nakinn? Nei, um lendar hans er vafið skýlu úr gulum hör. Lærin eru stinn, hnén fagurlega mótuð og kálfarnir sterklegir. Hann gengur til virðulegs öldungs sem er með þykkt, lokkum prýtt hár og skegg. Drengurinn tekur bikar undan slánni og færir hann að vörum öldungsins sem beygir sig niður og drekkur í botn. Síðan tekur hann um lendar drengsins, dregur hann að sér og kyssir af áfergju.
Lágvær stuna fór um salinn.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta