GLÆSILEGUR MAÐUR

Ég var einu sinni í Sjallanum að dansa við vinkonu mína. Á þeim árum átti ég hvít jakkaföt úr gallaefni; var svona grannur og smart. Hún var svolítið búttuð en það gerði ekkert til. Hún var jú bara vinkona mín. Ég er býsna góður dansari og það reynir mikið á þegar maður er að dansa við konu sem er miklu stærri um sig en maður sjálfur.

Í miðjum dansinum kemur til okkar kraftalegur og glæsilegur, dökkhærður maður og hann bókstaflega rífur okkur í sundur og hendir vinkonu minni burt. Hann gerir sér lítið fyrir og þrýstir mér að sér; ég finn hve sterkur og stinnur hann er. Svo kyssir hann mig beint á munninn og stingur tungunni inn; rýkur síðan burt af dansgólfinu. Mér fannst gott þegar hann kyssti mig.

Ég og vinkona mín vissum ekkert hvernig við áttum að taka þessu en við lukum við dansinn. Fljótlega á eftir fór ég að svipast um eftir manninum og ég fann hann í holinu fyrir framan danssalinn. Hann sat þar einn á stól við vegginn og drúpti ofurlítið höfði. Ég ranglaði til hans eins og af rælni og settist við hliðina á honum. En í því að ég ætlaði að yrða á hann þá stóð hann upp í skyndingu, leit ekki á mig og strunsaði í átt að útgöngudyrunum. Ég bætti á mig nokkrum drykkjum og vonaði að ég myndi sjá hann aftur. Um nóttina þegar ég var orðinn kófdrukkinn ranglaði ég um götur Akureyrar í þeirri von að ég hitti aftur dökkhærða, kraftalega og glæsilega manninn sem hafði kveikt í mér þennan undarlega eld.

+++

Mörgum árum seinna sagði ég vinkonu minni, sem er lessa, frá þessu.

„Jáhá, ha, ha, svo hann strunsaði út í skyndingu” sagði hún. „Þetta var merkjamál. Þú áttir að fara út á eftir honum og þá hefðir þú fundið hann á næsta götuhorni.”

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta