Skrifað í örlitla gormaskrifblokk.
Það hringsnýst allt. Þau segja hér að ég hugsi of hratt – og ég sem er rétt farinn að hugsa! Sitji guðs englar saman í kringum sængina mína. Þessi strákur hér á ská á móti – ruglar mig. Mig langar svo að verða faðir hans – ekkert ósiðlegt – heldur til að elska hann – gæla við hann eins og heill foss. Hvað ert þú að rugla um að elska. Þú hefur aldrei elskað það sem var við bæjarþústina hjá þér – bara þetta í fjarskanum – er það ekki satt? Ég bý með lítilli stúlku – ég elska hana. Nú er hún að æfa sig á fiðlu. Það er satt þú elskar hana eins og foss – eins og heill karlakórsfoss – eða bara – foss! Svo elska ég þá dökkhærðu. Í fyrstu elskaði hún mig ekkert á móti – en loks brostu augun hennar við mínum og við urðum vinir. Þessi rauðhærða er dularfyllst – samt hélt ég að hún væri sú eina sem ég þekkti. Kannski af því að ég hef elskað hana um ár og aldir? Ég elska eins og foss – líka eins og kliðandi lækur sem liðast niður hlíðina – sprænir stundum – en kliðandi, iðandi rennur hann svo í ótal hlykkjum niður til moldar. Já, moldarbarn. Hvert ætlarðu? Viltu fara í djúpið – eða viltu kannski sjá sólina? Það var ekki ætlun mín að rugla þig í ríminu!
Nú er bókin nær þriðjunguð.
Bara að það væri dvöl mín einnig og kvöl mín ekki til. Því þó þetta sé ruglað þá er þetta svo gaman og fræðandi. Nú missi ég af Töfraflautunni eftir Mozart með fósturdóttur minni. Mér finnst það allt í lagi. Ég sendi með henni íðilfagran yngissvein – skolhærðan og allan bungandi á réttum stöðum. Hann á líka að verða fóstur. En þetta eru allt of margar óskir til að rætast. Ég sjálfur er ýmist eld-, eldgamall eða ungur að nýju – ég vil frekar vera ungur. En þá byrjaði allt að snúast. Ungur – og eiga allt lífið framundan. Klár eins og allt þetta unga, glaða og fallega fólk sem ég umgengst. Ungur – ekki eins og þegar ég var ungur – þegar drunginn hvíldi yfir. Nei, enginn drungi – bara svona klárheit. Hvers vegna er þeim gefið svona miklu, miklu meira en mér – að jafnvel í erfiðleikunum eru þau falleg. Gamall – þegar maður er útbrunninn – þá kemur enginn og klappar manni á öxlina og segir: „Mikið djöfull var þetta gott hjá þér.“ Nei, það kemur enginn. Hrafnar voru á þingi – á því lúsaþingi. Þeir sögðu: „Krunk, krunk, krá“ og hættu svo öllu pípi. Öllu lúsapípi. Hverjir eru að hjálpa hverjum hér? Sjúklingar epa starfsfólk? Ég veit það ekki! Jafnvel útvarpið og TV-ið tala til mín á sérstakan hátt – einstakan hátt – eða þannig! Ætti ég að fá yddaðan blýantinn? Jæja, það finnst enginn yddari – en nýjan blýant fæ ég og líður því mun betur – eins og ég hafi himin höndum tekið – eða þannig – þú skilur? Hver var hann þessi Ingólfur Arnarson – stórhöfðingi eða bara stórt barn? Já, stórt barn – var hann kannski settur í hátignarsætið svo fólkið sem fylgdi honum – gæti kennt honum góða siði – alið hann upp – sýnt honum rétta hegðun. Ég tefldi við meistarann – dökkhærða strákinn sem ég vildi eignast sem fósturson. Hann lék sér að mér – við dönsuðum hæfilega – frekar, stuttan ballett á taflborðinu – og svo mátaði hann mig. Hann hló – hló – næstum allan tímann – inni í sér – og líka upphátt. Gaman, gaman – fljúgandi gaman – ekkert offors – engin gredda nema rétt í byrjun – svo bara hrein og tær ánægja. Er hann að hjálpa mér? Eða er ég að hjálpa honum? Að hjálpa sér sjálfur segir máltækið – eða hvað? Ég er að reyna það og allir í kringum mig eru að reyna það líka – og það tekst bráðlega! Ég las Hrafnamál eftir Þorstein Valdimarsson á sunnudaginn og þá byrjuðu öll ósköpin. Ég meina stjörnurnar og allir stafirnir sem fóru á fleygiferð – ég skildi ljóðin á fjölmargan máta – en einn skilningur er réttastur – eða hvað? Þegar undir lok bókarinnar var komið – hafði ég öðlast alla visku heimsins og ég átti með snilld að komast yfir móðuna miklu og halda lífi samt. Og það yrði sko ekkert smáræðis líf. Ég ætla að snúa á þá alla. Ég ætla ekki að verða gamall – ég ætla að verða ungur á ný – fallegur, ungur strákur – fallegur, ungur maður. Svo vildu þau henda mér út af Hressó. Og löggan var kölluð til. Ég hélt að ég stýrði þessu öllu – en vinur minn! Ó, nei! Það var sko verið að flytja mig á Geðdeildina aftur. Til hvers? Jú, til að lækna þig af stórmennskubrjálæði! Hvað er verið að sannfæra mig um – framhaldslíf – eða kannski kórferðalag – eða er það fossniður í grárri pípulögn? Þar hittirðu á rétt – minn kæri – í öll skiptin eins og ævinlega er um slíka menn að ræða – þeir hoppa og syngja eftir pípu meistarans – eða þannig! Fjörugir og sprellandi – svo ekkert fær þá aðskilið nema dauðinn – og hann aðskilur þá ekki – því þeir deyja sitt í hvoru lagi – og sameinast svo á einni stjörnu – örsmárri stjörnu – þarna uppi í háloftunum – tólf tóna stjörnu – eða þannig stjörnu sem allt skilur.
Hér er örlitla gormaskrifblokkin mín fullskrifuð.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta