Í SNAUÐARI HEIMI

Ég fékk bréf frá Paraguay í morgun, frá vini mínum þar. Hann er í þjálfunarbúðum til að læra spænsku; og einnig til að kynnast því hvernig fólk lifir af í snauðari heimi en við eigum að venjast. Hann er tíu ára núna. Í Paraguay fór hann í gegnum allt ferlið; alveg frá fæðingu til dagsins í dag. Fyrst var hann hjá móður sinni en hún var svo fátæk að hún gat ekki gefið honum að borða. Þá komu góðu konurnar á barnaheimilinu og tóku hann að sér. Þær sendu bréf til ríku mannanna og spurðu hvort einhver vildi senda drengnum pening, smá greiðslu svona einu sinni í mánuði. Ég er ekki ríkur en þar sem greiðslan á mánuði var svo lítil, þá gat ég sent pening til drengsins. Ég varð mjög glaður þegar ég fékk fyrstu myndina af honum. Ég þekkti svo vel þetta bros. Ég horfði djúpt í augun hans og ég sá alla drengina og telpurnar, alla mennina og konurnar sem mér þótti svo vænt um í landinu hans. Ég vissi ekki nöfnin á þeim en ég elskaði þau öll. Og það sem yljaði mér svo mikið var að þau elskuðu mig.

+++

Brosið frá þér ber þess merki að þér líði vel og ég á nokkurn þátt í því þar sem ég er guðfaðir þinn. Faðir og sonur; kannski átt þú eftir að verða pabbi minn og ég sonur þinn. Og kannski verð ég sendur til landsins þíns til að læra spænsku og að lifa af í snauðari heimi. Þú kemur svo til landsins míns til að læra íslensku. Og þá kynnist þú því, hvernig er að lifa af í ríkara landi. En það skiptir engu máli hvort við kunnum báðir íslensku eða spænsku. Við höldum áfram að tjá okkur eins og nú – með brosinu og augunum.

+++

Um hver jól og hverja páska fæ ég kort frá honum – full af glaðværum kveðjum. Og svo fæ ég líka myndir frá barnaheimilinu. Á þeim er hann að leika sér við vini sína. Ég sendi honum myndir af Norðurljósunum og Snæfellsjökli. Ég sagði honum að í jöklinum væri leið niður í iður jarðar. Kannski ég ætti að skreppa þangað og finna leiðina til hans.
Undanfarið hef ég velt því fyrir mér hvort ég og drengurinn eigum eftir að lifa saman í öðru hvoru landinu – það væri mjög gaman. Ég hef einnig velt því fyrir mér hvort við séum ein og sama manneskjan – að annar parturinn af henni sé úti í Paraguay og hinn hér heima á Íslandi. En þegar ég hugsa á svona heimspekilegum nótum þá verður læknirinn minn afskaplega raunamæddur og segir í mildum rómi: „Það er ekki hægt að skipta þér í tvo parta og planta þeim niður í sitthvoru landinu; hvað þá í sitthvorri heimsálfunni.“

+++

Ég er hræddur um að læknirinn minn sé ekki nógu vel að sér í grískri goðafræði.

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta