Ég ræddi það á dögunum við fyrrum konu mína, Hjördísi Hjaltadóttur, að ég myndi ekki eftir því að við hefðum farið út að borða í sjö ára sambúð okkar (1984 – 1991). Hún ætlaði varla að trúa þessu en gat ekki bent á neitt dæmi um ferð á veitingahús. Sennilega tíðkaðist það ekki hjá fólki í millistétt að leyfa sér slíkan munað á þessum árum.
Ég sagði systur minni frá þessu og viti menn – hún mundi eftir einni ferð á veitingahús. Hún og Pétur mágur minn, ég og Hjördís fórum eitt sinn út að að borða saman. Og þegar við vorum sest þá segir Anna Sigga eitthvað á þessa leið: “Mikið er þetta óhrjálegt umhverfi”. Ég er þekktur fyrir að reyna að gera gott úr öllu og sagði: “Þetta er ágætt – ef maður bara væri með góðu fólki”!
Við systkinin hittumst tvisvar til þrisvar á ári í svonefndum systkinahitting. Eitt sinn ræddi ég þar um “standard” fegurð leikkvenna í Hollywood. Mér er nefnilega gjörsamlega ómögulegt að segja til um hver kvensan er að leika dótturina og hver er mamman svo ég tali nú ekki um hver er er amman. Það urðu fjörugar umræður um fyrirbærið. Þeim lauk svo nokkuð snöggt þegar Pétur mágur kom með þessa játningu: “Ég hef aldrei orðið hrifinn af fallegri konu”!
Fyrri – Yfirlit góðgætis – Næsta