Árið 204 e.k. hitti ég hinn göfuga riddara Sir Lancelot. Hann var þá nýbúinn að missa hestasveininn sinn úr skæðri magakveisu. Því var ósköp eðlilegt að hann neyddist til að fá sér nýjan svein. Hinn göfugi riddari var einmitt staddur í þorpinu mínu og foreldrar mínir og ég urðum yfir okkur glöð þegar hann bauð mér starfið.
Upp frá þessu var líf mitt helgað hinum göfuga húsbónda mínum. Hann hafði sérlega gaman af burtreiðum enda mjög góður í þeirri íþrótt. Þar sem burtreiðar voru alltaf haldnar í köstulum mikilsmetinna aðalsmanna, þá þurftum við að ferðast býsna mikið. Eitt sinn þegar við vorum á miðri leið milli tveggja kastala, þá réðst á okkur hópur ribbalda. Tólf þeirra voru vopnaðir kylfum og sjö voru með boga og eitraðar örvar. En hinn göfugi riddari var alls ódeigur. Eftir svolitla stund hafði hann drepið stóran hluta óþokkanna. En þá var það, að ein örin stefndi á Sir Lancelot miðjan. Í skyndingu brá ég á það ráð að hoppa upp fyrir framan hinn göfuga húsbónda minn; örin hitti mig og þannig bjargaði ég lífi hans. Örin fór inn mjög nálægt hjarta mínu og eitrið deyddi mig nær samstundis. Þar sem sál mín fló úr líkamanum sá hún að mín var grimmilega hefnt; hinn göfugi húsbóndi minn hjó í spað öll fúlmennin sem eftir voru á lífi.
Enn í dag ber ég ör á þeim stað þar sem eitraða örin smaug inn í brjóst mitt. Sumir vina minna trúa því ekki að örið sé frá árinu 204 e. k. En mér er alveg sama. Örið er mér næg sönnun fyrir lífi mínu með Sir Lancelot.
Fyrri – Yfirlit góðgætis – Næsta