RA-TA-TA-TA-TA

Saklaust fólkið fellur fyrir byssukúlum vondu kallana – ra-ta-ta-ta-ta.

Ég stend við innganginn að setustofunni og brosi í kampinn.

Þetta gerist ekki í alvörunni – þetta er bara sjónvarp – léleg kennsla. Hallærislegt kennslusjónvarp – sem á að sýna okkur hvernig á ekki að fara með fólk. Það er hægt að feika allt í sjónvarpi.
Hvað deyja margir í einum raunveruleikasjónvarpsþætti? Sama saklausa fólkið – deyr aftur og aftur? Svo rís það upp – skellir sér inn í matartjaldið – velur úr öllum gerðum hamborgara með frönskum og drekkur gos með. Svo er það tilbúið í næstu senu. Þá drepa nokkur börn foreldra sína fyrir eina baunaskál – hlægilegt. Hver drepur svo sem foreldra sína fyrir eina baunaskál þó að hann fái hríðskotabyssu í kaupbæti? Hvílík heimska!

Hláturinn brýst fram. Ég sé að fólkið í setustofunni er farið að horfa á mig. Gremjan skín úr hverju auga. Ég reyni að stilla mig. Tekst það samt ekki nema að litlu leyti. Hláturinn – hálfkæfist og tístir.

Mig langar að segja við þau: Þetta eru leikarar – notaðir í mörgum senum. Púðurskot – kannski ekki einu sinni það – kannski bara slegið snöggt í potta og pönnur. Skriðdreki keyrir rétt í þessu yfir tvö börn – systkini – átta og tíu ára. Leikstjórinn hlýtur að hafa legið lengi yfir þessari senu. Það er svo erfitt að fá börn til að leika – sumir eru vonlausir í því. Börn verða eins og spýtukallar í höndunum á þeim. Hann kann sko til verka þessi – maður finnur skelfingu þeirra – sársaukann – hrópin eru ærandi – þetta er eins og það sé að gerast í alvörunni. Ha, ha, hver fer svona með börn? Kennslusjónvarp – ég nenni sko ekki að horfa á þetta lengur.

Ég glotti hæðnislega til þeirra. Ein konan horfir reiðilega til mín. Feit brussa. Hún er gjörsamlega rugluð – fullyrðir að Jesús Kristur sé alltaf að senda sér boð um það hvernig hún eigi að hjálpa okkur.

„Af hverju hundskastu ekki inn á herbergi – ódámurinn þinn – finnurðu virkilega ekkert til með börnunum, sem eru látin velja milli þess að drepa foreldra sína eða deyja? Og eru svo látin drepa mann og annan – með hríðskotabyssum.“

Það tekur því ekki að ansa henni. Ég ætla að koma mér inn á herbergi – kem svo aftur fram þegar einhver kvikmynd verður á dagskrá. Allir vita – jafnvel algjörir illar að í kvikmyndum er allt feikað. Það er ekkert farið í felur með það. Það eru meira að segja skrifaðar lærðar greinar um allt slíkt. Hvernig kastalar úr steini verða á svipstundu eldinum að bráð. Og hvernig hægt er að láta hobbita sýnast örsmáa við hliðina á Gandálfi. Allt svo flott – maður verður þátttakandi í ævintýrinu – raunveruleiki fram í fingurgóma.

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta