Þegar ég dvaldi á danska spítalanum þá var ég einu sinni staddur í stórum sal fullum af fólki. Á sviðinu stóð maður við ræðupúlt, það einhvern veginn ljómaði af honum. Hann flutti fallega ræðu um nauðsyn samkenndar milli fólks af ólíkum uppruna og með ólík lífsviðhorf; við þurfum að læra að hlusta hvert á annað. Samtal er ekki bara að einn tali, samtal er að stærstum hluta hlustun. Ef það er í heiðri haft þá munu samfélögin batna.
Ég leit í kringum mig; hvaða áhrif höfðu þessi orð á aðra í salnum? Þá tók ég eftir dálitlu skrýtnu. Ég sá daufan bjarma umhverfis marga. Og ég skynjaði að þetta fólk var að senda manninum fallegar hugsanir. Það var eins og þegar ein hugsun fæddist í salnum, þá breytti maðurinn henni í blóm. Og þegar margir lögðust á eitt og sendu manninum sömu fallegu boðin, þá breytti hann þeim í allaufgað tré og lauf þess dreifðust um salinn.
Mig hefur alltaf langað til að geta haldið svona fallega ræðu með hjálp fólksins í kringum mig.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta