Lítill sumarbústaður; lítill, hlýlegur sumarbústaður – skjól fyrir veðri og vindum. Þegar við systkinin stækkuðum var byggt við hann bæði í vestur og norður. Bústaðurinn varð ferhyrnt hús, níu metrar á hverja hlið.
Pabbi dó þegar ég var níu ára. Húsið okkar fór strax að láta á sjá en skjólið minnkaði ekki því mamma var alltaf á sínum stað. Hún þerraði tár mín og þvoði skítugu sokkana mína. Orgelið var höfuðdjásn stofunnar. Mamma spilaði gjarnan á það, með einum putta, falleg lög sem hún samdi og ég stóð keikur hjá og söng með.
Um tvítugt flutti ég að heiman. Ég var löngu hættur að syngja fallegu lögin. Ég þvoði sokkana mína sjálfur og þerraði tárin með vasaklút, sem ég keypti í Kaupfélaginu. Þegar ég var tuttugu og fjögurra ára, lést mamma.
Húsið var selt. Nýju eigendurnir breyttu mörgu. Þeir buðu okkur systkinunum að koma og sjá hvernig til hafði tekist. Ég fór ekki. Húsið var ekki lengur skjólið mitt fyrir veðri og vindum.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta