SOLDÁN

Við tökum alltaf leigubíl í og úr miðborginni. Þá var engin hætta á að vinir hans sæju okk­ur saman. Og ef við þurftum að ganga einhvern spöl þá var hann alltaf tíu metr­um á undan.

Hönd þín er hlý og kátína glitrar í fallegu, svörtu augunum þínum. Stundum greini ég sorg í þessum augum.

Pan er eini staðurinn þar sem við getum verið nokkurn veginn afslappaðir. Þar dönsum við saman og látum vel hvor að öðrum. Þegar við verðum þreyttir förum við upp á efstu hæðina og leggjumst hvor í sinn sófann, spjöllum eða þegjum.

Litli soldáninn minn með geislandi brosið. Nótt eina fékk ég að kyssa naflann þinn. En svo þurftirðu að skreppa frá, ætlaðir bara að vera tvo tíma. Að hálfum mánuði liðnum hringdirðu.

„Ég lenti í partýi.“

Það var gott að heyra aftur í þér. Ævintýrið hófst á ný. Þú lagðist hjá mér um leið og þú komst heim.

Mig langar að fljúga með þér á teppinu í Tívolí.

Þú sagðir mér frá köstunum: örskotsstund ertu kominn í undraland – fögur blóm, gott fólk, gleði og hlýja allt um kring; en snögglega breytist undralandið í helvíti, slefandi krókódílar, eitraðar slöngur og umhverfið ýmist jökulkalt eða drepandi heitt. Ég grét; þú hafðir líklega aldrei séð karlmann gráta fyrr.

„Og svo þegar þú ert búinn að fá góða vinnu og stærri íbúð þá fæ ég að búa hjá þér. Ég get séð um að halda öllu hreinu og kokka ofan í okkur.“

Ég klæði þig úr öllu, ber á þig ilmolíu og nudda. Fagur líkaminn er grannur og stæltur. Þú nýtur handa minna.

+++

Þegar ég flutti aftur heim til Íslands var djúp sorg í dökku augunum þínum.

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta