STEFÁN, FÖÐURBRÓÐIR MINN

Ég fékk að dvelja hjá Stefáni Sigurðssyni í þrjá mánuði eftir fyrstu dvöl mína á Kleppi. Það var erfitt að flytja til fjölskyldu minnar á Grenimelnum vegna þess að konan mín og tvær fósturdætur voru alls ekki búnar að jafna sig eftir sjokkið sem þær fengu þegar ég veiktist – og sjálfsagt jafna þær sig aldrei – því það var og er lítið gert til að hjálpa aðstandendum.
Dvölin hjá föðurbróður mínum var ljúf og uppbyggjandi. Hann var talsvert óánægður með það hvað ég gleypti í mig matinn og sagði: „Þú átt að tyggja matinn 20 sinnum áður en þú lætur hann renna niður, þannig byrjar meltingin í munninum og þú fullnýtir næringuna úr fæðunni.“ Ég hélt áfram að gleypa.
Hann var uppfullur af fróðleik og ég fékk að heyra ótalmarga ljóðabálka eftir þjóðskáldin og ekki þurfti Stefán að fletta þeim upp í bókum – hann kunni þau utanbókar og flutningurinn var frábær því Stefán var óvenju góður flytjandi. Hann var lítt hrifinn af atómljóðum og reyndi ég að halda uppi vörnum fyrir þau. Í því skyni gaf ég honum Fiðrið úr sæng Daladrottingar eftir Þorstein frá Hamri og sagði yfirlætislega við hann: „þegar þú ert búinn að læra þessi ljóð utanbókar þá skulum við ræða aftur um gömul ljóð og ný.“ Eftir lát hans kíkti ég eitt sinn í bókasafnið hans og viti menn þarna var bókin á áberandi stað. Ég tók hana úr hillunni og fletti henni. Hún var stíf eins og bækur eru þegar þær koma beint úr bókabúðinni. Það var greinilegt að hann hafði aldrei opnað hana.
Seinustu árin bjó hann hjá dóttur sinni, Önnu Jórunni, og bróður mínum heitnum, Þórhalli. Stefán notaði heyrnartæki af gömlu gerðinni. Hann átti því mjög erfitt með að taka þátt í samæðum ef fleiri en tveir sátu með honum. Það hefur örugglega verið sárt fyrir hann því hann hafði sterkar og skynsamar skoðanir á flestu og hafði mjög gaman af að ræða um menn og málefni. Eitt sinn þegar ég kom til þeirra í Hveramörkina þá var hann einn heima. Þetta varð ljúf stund. Hann hitaði kaffi; við settumst inn í stofu og hófum notalegar samræður. Þarna var aftur kominn maðurinn sem ég hafði leitað skjóls hjá nokkrum áratugum fyrr. Það varð smáþögn í samtali okkar en svo sagði Stefán: „Ég var að koma úr afmæli hjá skólabróður mínum – hann varð 108 ára“. Aftur varð smáþögn. Svo tók hann aftur til máls: „Hallgrímur – veistu að mig langar ekki að verða 108 ára“. Hann var þá 102 ára og honum varð að ósk sinni því hann lést ári seinna.

FyrriYfirlit góðgætisNæsta