Í draumum mínum er sálufélaginn ljóshærður, ungur, vel vaxinn, blíður og fallegur. Hann þarf að vera lægri en ég því ég er toppur. Það er svo kjánalegt þegar toppurinn er minni.
Ég er á Nasa að leita að honum. Þeir sem líta á mig líta strax undan. Þeir hugsa sjálfsagt: ég hef ekki séð þennan gamla áður, hvað er hann að gera hér? Mér verður litið í átt að barnum og þá sé ég mann sem er að kaupa sér drykk. Hann er ungur, hár og spengilegur. Hárið er hrafnsvart og augnaráðið beinist að mér – ákveðið, næstum stingandi. Andlit hans er ekki beint frítt, en dregið skýrum dráttum. Ég hef séð hann áður; hann vinnur sem þjónn á veitingastað hér í borginni.
Ég lít í kringum mig; jú – hann er að horfa á mig. Hvað vill hann mér? Ég lít undan.
Nei, hann passar ekki fyrir mig, það er alveg kristaltært; hann er ekki sálufélagi minn. Hann er örugglega toppur líka, miklu hærri en ég og svarthærður í þokkabót.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta