Undanfarnar vikur, jafnvel mánuði, hefur þunglyndið plagað mig. Ég sat – heilu og hálfu sólarhringana – í leysíboy-stólnum mínum og horfi á NETFLIX. Stóllinn tekur reyndar allt of mikið pláss – þekur gólfflöt stofunnar til hálfs. Ég á enga vini sem heimsækja mig svona óboðnir – ég þarf að bjóða þeim í mat eða kaffi til að þeir láti sjá sig. Og það er alls ekki á sig leggjandi þegar geðið er svona laskað. Það er af, sem áður var svo huggulegt, að fólk skrapp í kaffi til hvers annars þegar það vantaði félagskap – til að spjalla eða þegja saman. Eina sambandið sem ég átti í við annað fólk var að renna niður tíma-línu Fésbókarinnar og læka við það sem vinirnir settu þar inn. Ég læka þó ekki við allt – ég set skýr mörk – læka hvorki við myndir af köttum né hundum – svo ég tali nú ekki um myndir af kanarífuglum.
Ég var alveg hættur aðal tómstundargamni mínu – að skrifa örsögur og leikrit. Það nennti hvort sem er enginn að lesa þetta – hvorki sögurnar né leikritin. Svo maður tali nú ekki um að koma leikritunum á fjalirnar – Vefsíða Hallgríms (hallihro.is).
En viti menn fyrir nokkrum dögum fékk ég himnasendingu. Eldingu laust niður í bak mitt rétt ofan við mjaðmirnar. Slík elding nefnist víst þursabit – og enginn jarðnesk vera kann skýringu á því hvers vegna bitið er í mann. En ég er sannfærður um að einhverjar góðar vættir hafi ákveðið eftir miklar spekúlasjónir að eina leiðin til að lækna þunglyndi mitt væri að láta þurs bíta mig. Hann hélt biti sínu í heila fjóra sólahringa og beitti ég ýmsum ráðum til að losna við kvalirnar. Ég gat ekki sofið því kvalirnar jukust sama hvernig ég bylti mér í rúminu. Og aðrar eins kvalir hef ég aldrei mátt þola hvorki lifandi né dauður.
Þegar ég loks hafði sigrast á biti þursins var ég allur annar maður. Til marks um það fæddist þessi nýja örsaga. Lækunum á Fésbókinni fór fækkandi og ég setti meira að segja nokkur vitræn innlegg inn á þetta vina-samfélag. Ég er farinn að hlusta á músík – held samt áfram með bíómyndir og TV-seríur. Svo er ég farinn að dansa við sjálfan mig – þar sem ég á engan dansfélaga – er reyndar góður dansari þó ég segi sjálfur frá. Dansleikni mín náði hæstu hæðum við uppsetningu leikritsins ROKKHJARTAR SLÆR hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Dansfélagi Sæma rokk kenndi mér að „sveifla dömunni yfir höfði mér“. Galdurinn reyndist vera sá að ég stóð óhagganlegur eins og stólpi en daman fór heljarstökk yfir stólpann – Björk Jakobsdóttir. Hér notaði ég mottóið hans Þórhalls bróður: „Ef enginn hrósar þér, þá skaltu bara gera það sjálfur“.
Þursabitið læknaði sem sagt þunglyndið. Ætli það lækni líka oflætið – maníuna – hjá mér?
Fyrri – Yfirlit góðgætis – Næsta