Ég þurfti að hvíla mig á spítalanum hér í Kaupmannahöfn. Einn daginn fékk ég útivistarleyfi og fór niður á Ráðhústorg. Þar var hljómsveit frá Perú að flytja þjóðlög frá heimalandinu: flautur, bumbur, dans, strengir og söngur. Það var margt um manninn á torginu og talsverður hópur fólks hafði myndað hring um listamennina. Mér varð starsýnt á lítinn indíánadreng, svona um það bil sjö ára. Hann gekk um meðal áheyrenda – bláar, ofurlítið slitnar gallabuxur, fjólublá skyrta með fallegu grænu, gulu og rauðu mynstri, marglitur klútur um hálsinn; í hendinni hafði hann flókahatt og í hann gat fólkið sett pening eftir efnum og ánægju.
Ég ætlaði að setja pening í hattinn en missti hann niður rétt við fætur mér. Drengurinn kraup á kné til að ná peningnum; áður en hann stóð upp þá leit hann á mig, brosti og þá sá ég töfraljómann sem stafaði af honum. Hann reis á fætur og gekk áfram með hattinn.
Ég fann að hann gaf fólkinu miklu, miklu meira en það gaf honum.
+++
Þegar ég kem aftur heim á spítalann fer ég inn á herbergi vinar míns og við reykjum nokkrar sígarettur. Það er náttúrulega bannað inni á herbergjum.
Vinurinn skellihlær og segir. „Hvernig er hægt að refsa okkur; kannski handjárna eða setja í spennitreyju.“
Skyndilega tek ég eftir bláum, ofurlítið slitnum gallabuxum sem hanga á baki eins stólsins. Ég gleðst ósegjanlega mikið og sný mér til vinar míns.
„Eru þetta buxur litla drengsins á Ráðhústorginu?“
„Jaaá“, segir hann eftir ofurlitla umhugsun.
„Kom hann hingað? Hvenær kemur hann aftur?“ Ofurlítil þögn.
„Hann skrapp frá.“
Ég sé fyrir mér hvernig við leikum okkur við hann, þegar hann kemur til baka. Vinur minn á heilt safn af Matchbox bílum sem hann geymir á borði úti í horni. Ég gæti verið hesturinn hans og vinur minn asninn. Langa stund sitjum við, reykjum og bíðum eftir drengnum. Þegar mér finnst koma hans dragast á langinn, spyr ég. „Varstu að plata mig? Eru þetta ekki buxurnar hans?“
„Neeii, ekki beinlínis.“
„Af hverju sagðirðu að hann væri að koma?”
„Ég, ég, vildi ekki eyðileggja drauminn þinn.“
SÍÐAR
Sautján árum síðar hitti ég indíánadrenginn aftur; ég var á ferðalagi í Perú. Hann hafði ekkert elst. Og klæðnaðurinn var sá sami utan þess að nú var hann með þverröndótta, marglita prjónahúfu í stað hattsins. Hann brosti glaðlega til mín og kátínan í augunum sagði mér að hann þekkti aftur manninn sem missti peninginn á Ráðhústorginu.
Hann fór með mig inn í kirkju sem stóð við aðaltorgið í borginni. Veggir hennar voru úr ávölum steinum, límdum saman með steinlími. Þegar inn kom blöstu við í hverjum krók og kima, styttur og myndir af Jesú, Maríu mey, Páli postula. Stytturnar voru slegnar gulli – gulli Inkanna. Einnig voru þarna risastór málverk af valdsmönnum innrásarhersins og fjölskyldum þeirra.
Litli drengurinn leiddi mig að litlu ferhyrndu opi nálægt miðju kirkjunnar vinstra megin. Umhverfis opið voru járngrindur á þrjá vegu en á fjórða veginn voru steintröppur sem lágu niður í hvelfingu undir kirkjunni. Dökkt og glansandi slit hafði markast í steininn; slóð eftir fætur margra kynslóða. Við fikruðum okkur niður í kjallara og þegar þangað var komið var svo lágt undir loft að ég gat ekki staðið uppréttur. En drengurinn stóð þarna keikur, brosti og gekk út að einum veggnum og strauk hendinni niður hann. Veggurinn var hlaðinn úr stórum, fallega tilhöggnum steinum, flötur snerti flöt, engar glufur, ekkert steinlím. Kirkjan stóð á gömlum grunni sem hafði staðið undir einum af helgistöðum Inkanna.
Í hvert sinn, sem landið hristist og skókst þá hrundu veggir kirkjunnar svo það þurfti að hlaða þá að nýju en ekkert fékk haggað grunninum sem stóð á hinum forna helgistað.
Þegar við komum aftur út á torgið sýndi drengurinn mér styttu af mesta stríðsmanni Inkanna. Það var græn stytta á voldugum og fallegum stöpli. Enn mótaði fyrir gullnum lit á hjálmi, spjótsoddi og skildi. Við settumst á bekk við styttuna. Glaðlegur hnokki burstaði skóna mína. Litli indíánadrengurinn brosti til fólksins á torginu.
Sólin var lágt á lofti. Það var farið að kula. Um nóttina yrði nístingskuldi. Við sátum þarna þétt saman fram undir morgun.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta