Ég lagðist á hnén undir gömlum fiskhjalli úti á Granda, tók upp hnífinn, stóran, flugbeittan hníf. Við notuðum hann til að skera brauðið okkar, fiskinn og kjötið heima á Grenimelnum. Ég beygði mig fram og mundaði hnífinn. Ég ætlaði að stinga honum í magann þannig að hann gengi mjúklega inn. En ég hikaði.
Enn í dag velti ég því fyrir mér, hvers vegna ég hikaði. Var það vegna þess að mig skorti kjark? Eða var það af því að heima á Grenimelnum voru þrjár konur sem biðu mín? Hafði ég leyfi til að skaða líf þeirra?
Þegar ég kom heim og sagði frá því hvernig mér leið, þá keyrði eldri fósturdóttir mín mig niður á bráðamóttöku Geðdeildar Landspítalans.
Ég hafði nokkru áður leitað til heimilislæknisins míns vegna þunglyndis. Hann sagði mér frá gleðipillum, sem myndu hjálpa mér upp úr þessari lægð. Hann ávísaði á þrjátíu pillur; ég átti að taka eina á dag. Að því loknu vildi læknirinn fá mig í viðtal svo hann gæti metið ástand mitt.
Að tuttugu pillum étnum var ég kominn á flug, sæll og glaður eins og annað fólk. En þegar ég hafði étið allar pillurnar þá var ég orðinn gjörsamlega óþolandi á heimilinu.
Konurnar mínar þrjár vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Ég hæddist að þeim og særði þær og sýndi þeim fram á að þær væru ekkert annað en heimskar og vankunnandi Meðal-Gunnur. Nú var ég loksins kominn á þann stall sem mig hafði alltaf dreymt um: ég var snillingur og mér voru allir vegir færir.
Svo kom að því að ég fór í matið hjá lækninum. Hann sá strax að ástandið var grafalvarlegt og skrúfaði fyrir frekara pilluát. Tíu dögum seinna var ég kominn undir fiskhjallinn á Grandanum.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta