„Stattu upp, ég ætla að sitja þarna!“
„Nei!“
„Snautaðu þér upp af stólnum, auminginn þinn“
„Nei“, röddin var veikluleg og á lægri nótunum.
„Þú hefur alltaf verið helvítis fífl – huglausi ræfillinn þinn! Upp af stólnum! Ég er eldri og þú átt að hlýða mér! Þú hljópst vælandi til mömmu ef andað var á þig – þegar þú varst krakki – gerirðu það enn! Ertu hættur að pissa undir og hvenær skeistu síðast á þig? Svona – hunskastu upp af stólnum!“
Ég stóð upp og labbaði skjálfandi inn í herbergi. Ég lokaði hurðinni og stóð drjúga stund á miðju gólfi. Svo setti ég plötu á fóninn: Aqualung með Jethro Tull. Ég hlustaði á þrjú lög. Síðan læddist ég út um bakdyrnar og að rótum fjallsins. Ærandi rokkið glumdi í eyrum mér. Ég klifraði upp, gekk eftir fjallshryggnum. Rétt áður en ég var kominn út á brún hamrabeltisins hrasaði ég. Ég settist upp; við mér blasti sveitin í fjarska – gróin tún og falleg, reisuleg hús – kind og kind á stangli.
Hann, sem ég hafði elskað og dáð til sjö ára aldurs – hafði loksins sagt mér hver ég var.
Fyrri – Yfirlit örsagna – Næsta