UPPÁKLÆDDUR

Ég bauð nokkrum vinum í partý. Þar á meðal voru stúlka og piltur – fyrrverandi par. Þau voru góðir vinir eftir sem áður. Ólík? Já. Hann drakk rauðvín, var róttækur og klæddi sig hippalega, en hún vildi lifa eins og pabbi og mamma gerðu: við íhalds­semi og munað.

Hann kom, aldrei þessu vant, glæsilega búinn: velburstaðir, dökkbrúnir skór, stífpressaðar svartar buxur; fallegur, dökkfjólu­blár flauelsjakki, drifhvít skyrta – og falleg, þykk slaufa. Var hann að klæða sig upp á fyrir hana? Nei, þau töluðust lítið við, bara svona svipað og vinir gera innan um annað fólk. Það var engin spenna í loftinu á milli þeirra.

Ég hafði alltaf verið hrifinn af krullunum í hári hans. Þær voru eins og áður, frjálsar; engin greiða hafði spillt þeim.

„Þú hefur aldrei verið svona fallegur síðan þú fermdist.“

Ég hrökk við – ah – þetta var allt í lagi. Ég hafði bara hugsað þetta.

Hann sat eftir hjá mér þegar allir aðrir voru farnir. Við settumst fljótlega á teppalagt gólfið í notalegum afslöppuðum stellingum. Ég las fyrir hann falleg ljóð og hann fann í bókunum mínum ljóð sem honum þótti vænt um. Við sátum þarna lengi nætur.

+++

Núna, mörgum árum síðar, man ég ekki hverjir aðrir voru þarna hjá mér í partýinu. Fimmtán árum seinna hitti ég hann á förnum vegi. Hann var þá giftur og fluttur til útlanda, var bara í smáheimsókn – jarðarför eða fermingarveislu, ég man ekki hvort. Við röbbuðum saman, svona um það hvernig lífið hafði æxlast hjá okkur þennan tíma. Eftir nokkurt skraf bauð ég honum út að borða um kvöldið.

Staðurinn var virðulegur, þekktur fyrir ljúffengar steikur og gómsæta eftirrétti. Við fengum okkur Camparí í fordrykk. Umræðan varð fljótlega eins og framhald af umræðunni fimmtán árum fyrr. Við hneyksluðumst á íhaldinu og gáfum forystu­mönn­um vinstri flokkanna slaka einkunn. Og vinirnir – hvar voru þeir staddir í lífinu? Með matnum drukkum við skraufþurrt rauðvín.

Við vorum langt komnir niður í þriðju flöskuna þegar hann segir með strákslegu brosi: „Þú varst mjög ástfanginn af mér hérna um árið – ekki satt?“

Ég leit út í salinn og sagði spekingslega eftir andartaksþögn:

„Hvað er ást og hvað er vinskapur? Hvort er mikilvægara eða meira gefandi?“

Umræðan hélt áfram, en fyrir mér stoppaði hún á þessari speki minni.

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta