VERNDARAR

Ég var á göngu eftir Strikinu í Kaupmannahöfn. Á undan mér gengu tvær manneskjur og tvær á eftir – verndarar mínir. Ef einn þurfti að ganga örna sinna eða bara pissa þá brá hann sér inn á næstu krá og fékk sér ölkrús til að kæla sig. Það reynir nefnilega á að vera verndari. Það brást ekki að í stað þess sem fór inn á krána, skellti sér einn verndari í viðbót inn í fjögurra manna hópinn.

Ef ég fór inn á krá sjálfur þá héldu hinir ótrauðir áfram eftir götunni. En þegar ég fór svo út eftir þrjá til fjóra bjóra, fylgdu mér ávallt tveir kráargesta út á götuna og svo bættust tveir aðrir við; þeir höfðu reynt að fela sig inni á sexsjoppu en þeir plötuðu mig ekki.

Af hverju er verið að vernda mig? Það er von að spurt sé. Jú, mér er sem sé ætlað stórt hlutverk í lífinu, því var spáð þegar ég var 15 ára. Þá var mér líka sagt að ég hefði verið Jónas Hallgrímsson í fyrra lífi:

Með krús í hendi ég sat eitt sinn

þá settist lóa við gluggann minn.

og þó hún syngi …

Bíðum nú við – þetta er ekki eftir Jónas . . .

Ég sá í gegnum allan laumuháttinn. Og mér varð ljóst að fólkið sem fylgdist með mér á fyrstu dögum þessarar farar vildi mér vel; ég fann fyrir augnráði þess á bakinu á mér. Og nú skildi ég söng símalínanna, þetta var ómur þúsunda tónverka mestu snillinga heimsins. En á þessum árum hafði ég bara ekki það næmi og þann þroska sem þarf til að greina samhljóm tónanna. Ég var bara rétt farinn að skynja hreinan tón gítarsins og fiðlunnar.

Mér er ætlað stórt hlutverk. Ég er í Kaupmannahöfn að hvíla mig svo ég verði tilbúinn í næstu þolraun. Ég fékk inni á Geðdeild Den Kommunale Hospital. Á milli þess að ég og hinir „sjúklingarnir“ erum að hjálpa starfsfólkinu að ná áttum, þá fer ég út í garðinn, reyti nokkrar arfaklær og hlúi að rósum og alparunnum. Stundum finnst mér reyndar ég sé kominn heim í garðinn hennar mömmu. Hún var með græna fingur, allt óx og dafnaði hjá henni – meira að segja örverpið ég.

+++

Nú er ég að upplifa verndað umhverfi – hér á Kanarí. Vinkona mín sem ég kynntist á finnskum veitingastað um síðustu jól og áramót, útvegaði mér ódýrt smáhýsi í þyrpingu smáhýsa sem eru umhverfis sundlaug. Virkilega notalegur staður; friður og ró.

Ég horfi á sígarettuna mína. Vitur kona kenndi mér að lesa í sígarettuösku: „Ef þú heldur rettunni lóðrétt og bíður, þá sérðu indíána; hann er verndari þinn. Allir eiga sér verndara af indíánaættum. Nú sé ég hann. Hann heldur á barni í fangi sér.

En sundlaugin reyndist vera mesta skaðræðisfól. Hún sem er svo freistandi þarna í miðju þyrpingarinnar, blá og tær og hreinsuð á hverjum morgni. Ég hætti mér niður í hana um daginn bara nokkur þrep í
tröppunum. Vatnið náði svona rétt upp fyrir hnésbæturnar. Ég þaut strax upp úr aftur. Síðan hef ég legið í flensuskratta í fimm daga og sit því hér á sólarströnd með trefil, í síðum buxum og peysu úr lamaull; afskaplega mjúkri og hlýrri; ég keypti hana í Perú. Ég er enn með verk í hálsinum og þarf sífellt að snýta mér. En þetta var nú ekki það versta. Í miðri flensunni fékk ég einhverja þá hrikalegustu gyllinæð sem ég hef nokkurn tíma fengið.

Fyrir ofan smáhýsið mitt býr afskaplega falleg stúlka, með svart, sítt hár og gleraugu með dökkri umgjörð. Ég hef ekki þorað það nærri henni að ég sjái augnlitinn. Hún reykir oft úti á svölunum sínum. Þær er  umluktar fallegu hvítmáluðu liljuverki. Hún hefur, eins og ég, eina fjóra svona stóla og borð og öskubakka. Hvort skyldi hún vera drottning eða prinsessa? Kóngafólk, hvers konar fólk er það? Það glitrar af því. Ég hef oft hugsað: eru þetta börn – vernduð börn? Þeim er kannski ekki ætlað þetta hlutverk í framtíðinni, að vera svona upp á punt. Hver hjálpar þeim að ná meiri þroska? Eru það kannski herbergisþjónn kóngsins og þerna drottningarinnar og fóstra barnanna sem halda í spottana? Þjónninn kemur kónginum í rúmið á kvöldin, sauðdrukknum og slefandi; klæðir hann svo í pell og purpura morguninn eftir svo gleðin geti hafist á ný. Þernan þekkir öll leyndarmál drottningarinnar. Hún hleypir elskhugum hennar, einum í einu, inn um bakdyrnar og þvær síðan nærfötin hennar.

En fóstran – hver er hún? Hennar sess er líklega ofar öllum hinna. Hún heldur hlífiskildi yfir börnunum. Nema að hún sé náttúrulega vond norn; á misjöfnu þrífast börnin best. Fóstran býr börnin undir hremmingar lífsins utan hallarinnar; hún dregur fram það fegursta og það blíðasta sem býr í prinsunum og prinsessunum okkar.

Æ, nú er ég farinn að rugla. Fallega stúlkan þarna á svölunum – ég veit ekki hver hún er. Er hún einn af verndurunum mínum? Hún er svo róleg. Hún minnir á indíánastúlku, reykir og horfir gjarnan á hvernig rettan brennur. Horfir í öskuna, hún sér örugglega sjálfa sig í öskunni. Er hún kannski indíáninn sem er með mig í fanginu?

 

Fyrri    –    Yfirlit örsagna    –    Næsta