AUÐNULEYSINGI

ÞÓRA

Þegar við bjuggum á Sauðanesi þá áttum við forláta hryssu, hana Skjónu mína. Við ætluðum að leiða hana undir hann Fagra-Blakk en hann var af góðu kyni – langt aftur í aldir.

ANNA

Og kom ekki mannvænlegt – uhu, eintak – út úr því?

ÞÓRA

Ekki varð nú af því. Heldurðu ekki að helvítið hann Sóti, algjör tunta af næsta bæ, Auðnuleysu … ég bara tárast þegar ég segi frá þessu. Heldurðu ekki að hann hafi læðst upp á hana Skjónu mína og þjösnast á henni í óra tíma.

ANNA

Jesús minn, og mótmælti hún ekki.

ÞÓRA

Hvað gat hún svo sem gert – hann hefði bara orðið fullur ofsa og harðýðgi.

ANNA

Ekki að spyrja að – þetta karlkyn – það skilur ekki að nei þýðir nei.

ÞÓR

Ég var gráti nær.

ANNA

Ekki skal mig undra. Þetta hefur náttúrulega orðið hið mesta grey?

ÞÓRA

Ja, en það sannaðist þarna hið fornkveðna: Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

ANNA

Hvernig geturðu sagt þetta? Hvernig gat þetta orðið gott.

ÞÓRA

Jú, sérðu – við slátruðum Auðnuleysingja – en svo nefndum við folaldið – um haustið. Veturinn á eftir varð mjög harður – sá harðasti í manna minnum – og kjötið af greyinu reyndist bæði bragðgott og nærandi.


Fyrri Yfirlit góðgætisNæsta