Annað árið mitt sem kennari við Flensborgarskólann keypti ég íbúð ásamt parinu Beggu og Hjálmari, en þau voru samkennarar mínir. Þarna bjuggum við undir sama þaki ásamt yndislegum börnum þeirra, Rönku og Stjána. Eftir tveggja ára sambýli ákvað ég að flytja mig undir annað þak. Og um sömu mundir skildu leiðir þeirra Beggu og Hjálmars. Börn þeirra ólust síðan upp hjá henni.
Nokkru eftir þakskiptin, rétt fyrir jólin, hitti ég Beggu og Stjána í bókabúð Máls og Menningar. Hún hló út fyrir eyru og sagði mér þennan líka spreng hlægilega brandara: „Veistu hvað hann Stjáni óskar sér í jólagjöf“? Ég gat engu svarað um það. „Hann vill fá þig í jólagjöf!“ Við rákum bæði upp skellihlátur. Litli drengurinn sem stóð á milli okkar fór að hágráta. Við Begga stífnuðum upp – annað eins og auli – hitt eins og hálfviti. Við vissum ekkert hvernig við áttum að bregðast við.
Í dag veit ég hvernig ég hefði átt að bregðast við. Ég átti auðvitað að krjúpa á kné fyrir framan drenginn, faðma hann að mér og segja honum að ég hefði aldrei heyrt um svona fallega ósk.
Fyrri – Yfirlit góðgætis – Næsta