FYRSTU SPORIN Á SVIÐI LEIKHÚSA

Ég bjó á Akranesi – kenndi við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Eitt sinn, í miðri kennslustund var bankað á dyr skólastofunnar. Ég opnaði og fyrir utan voru tvær brosmildar konur. Ég fór fram á ganginn og lokaði inn í stofuna. Svo kom erindið: „Ertu ekki til í að koma og leika Organistann í Atómstöðinni hjá leikfélaginu okkar?“ Ég hafði aldrei stigið á svið – en hvernig gat ég neitað þessu? Atómstöðin er eitt af uppáhaldsverkum mínum eftir Nóbelsskáldið. Og organistinn – hvílíkur heiður – að trúa mér fyrir þessari ljúfu persónu. Hvernig gat ég neitað?

Æfingar hófust og fljótlega heyrði ég pískrað að frammistaða mín yrði ekkert annað en stórkostlegur leiksigur. Ég elfdist allur og lifði mig betur og betur inn í þennan góða og vitra karakter. Frumsýningin nálgaðist og væntingar allra flugu fjöllunum hærra. Fullur salur var á frumsýningunni og ég heyrði að orðspor mitt hafði stórum stækkað meðal bæjarbúa. Þegar maður leikur svona magnað hlutverk þá kappkostar maður að því að fara rétt með textann. Maður þarf að læra hann utanbókar svo hann flæði ljúflega út í salinn. Mér varð á að hiksta á tveimur setningum. Ég ruglaðist á röð þeirra og nú vildi ég – trúr textanum – lagfæra þessi mistök. Ég endurtók því setningarnar – og nú í réttri röð. Eftir sýninguna var ekkert minnst á leiksigur.

Á þriðju sýningu vildi svo til að þennan sama dag hélt Alþýðubandalagið landsfund í bænum. Gestir fundarins mættu allir á Atómstöðina um kvöldið. Ég var í góðu formi – ákveðinn í að skapa ógleymanlegan Organista. Í einu atriðinu situr Ugla mjög döpur hjá Organistanum og ræðir ólán sitt. Hún átti von á barni með húsbónda sínum – og hún var ekki einu sinni fermd. Organistinn segir við hana: „Börn barna verða lukkumenn“. Hún reynir eitthvað að malda í móinn og hann svarar: „Var það illt, var það slæmt að móðir mín skyldi eignast mig sumarið sem hún fermdist“. Síðan heldur hann ræðu um móður sína og lýsir henni svo fallega að hörðustu karlmenn í salnum vikna. Í þessu atriði mátti heyra saumnál detta þegar mér tókst vel upp.

En á þessari sýningu þar sem allir vinir mínir úr Alþýðubandalaginu voru, þá orðaði ég setninguna á þennan veg: „Var það illt, var það slæmt að móðir mín skyldi eignast mig sumarið sem ég fermdist?“ Frá búningsherberginu heyrði ég niðurbælt fliss – en það heyrðist ekkert frá saumnálunum í salnum. Ég titraði og skalf – beit í vör mína – og hélt ótrauður yfir í ræðuna um móður mína. Aldrei hljómaði hún fegurri og hlýrri. Ég vissi að nú fossuðu tár niður kinnar hörðustu karlmannanna í salnum. Leiksigur minn var í höfn.

Eftir sýninguna fór ég á ball hjá félögum mínum í Alþýðubandalaginu. Fljótlega vér sér að mér góður vinur minn úr hópnum og hvíslaði í eyra mér: „Þetta hefur verið erfið fæðing hjá henni móður þinni“.

FyrriYfirlit góðgætisNæsta